Ekki farinn að hugleiða umræðustöðvun

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir að enn sem komið …
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir að enn sem komið er sé hann ekki farinn að hugleiða að stöðva málþóf Miðflokksins. mbl.is/​Hari

Þingmenn hafa komið að máli við Steingrím J. Sigfússon forseta Alþingis og velt því upp við hann hvort að ekki sé orðið tímabært að stöðva innanflokksumræðu þingmanna Miðflokksins um þriðja orkupakkann með því að beita því úrræði sem finna má í 71. gr. laga um þingsköp, sem veitir forseta vald til þess að stinga upp á því að umræðum um tiltekið dagskrármál sé hætt eða að þeim verði sett ákveðin tímamörk.

„Það hafa einhverjir þingmenn verið að nefna það hvort þetta sé ekki það langt gengið að það sé tilefni til að skoða það. Ég hef verið tregur til að gangast inn á að ég sé farinn að hugleiða það, ennþá að minnsta kosti,“ segir Steingrímur í samtali við mbl.is.

Steingrímur segir að það sé eðlilegt að byrja, eins og forsetar Alþingis hafi byrjað á að gera, að beina þeim tilmælum til þingmanna Miðflokksins að fara að draga úr ræðuhöldunum.

Frá þingflokksfundi Miðflokksins. Þingmenn flokksins hafa rætt um þriðja orkupakkann …
Frá þingflokksfundi Miðflokksins. Þingmenn flokksins hafa rætt um þriðja orkupakkann í yfir 80 klukkustundir í ræðustóli Alþingis. mbl.is/​Hari

„Það bar engan árangur, að sér verður,“ segir Steingrímur, en umræður um ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. Viðauka (Orka) við EES-samninginn, hafa nú staðið yfir í rúmar 100 klukkustundir, samkvæmt því sem Guðjón Brjánsson varaforseti Alþingis sagði er hann sleit þingfundi kl. 10:26 í morgun. Þar af hefur ræðutími miðflokksmanna verið yfir 80 klukkustundir.

„Svona er bara staðan og við verðum að sjá til hvað verður eftir helgina,“ segir Steingrímur.

Heimild er í þingskaparlögum fyrir forseta til þess að bera …
Heimild er í þingskaparlögum fyrir forseta til þess að bera það undir þingið hvort stöðva skuli tiltekna umræðu eða setja henni föst tímamörk.
mbl.is

Bloggað um fréttina