Dvínandi áhugi á Íslandi

Flugvélar EasyJet.
Flugvélar EasyJet. AFP

Ísland er ennþá vinsæll áfangastaður á meðal viðskiptavina breska flugfélagins EasyJet. Hærra verðlag hérlendis hefur samt sem áður leitt til dvínandi eftirspurnar eftir flugferðum til landsins.

Þetta kemur fram í svari Andy Cockburn, talsmanns EasyJet, við fyrirspurn mbl.is en stutt er síðan fregnir bárust af því að flugfélagið hefði fækkað ferðum sínum til Íslands.

„Við fljúgum með yfir 445 þúsund farþega á ári til og frá Íslandi í átta áætlunarferðum og landið er enn vinsæll áfangastaður hjá viðskiptavinum okkar bæði á sumrin og á veturna,“ segir Cockburn.

„Samt sem áður veldur hærra verðlag því að aðeins hefur dregið úr eftirspurninni til landsins og þess vegna höfum við fækkað flugsætum um í kringum fimm prósent frá því á síðasta ári.“

Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines hefur einnig fækkað ferðum sínum til Íslands og ætlar ekki að fljúga til Íslands í vetur.

mbl.is