Tveir skálar „í gjörgæslu“

Stefnt er að því að koma rekstri í eðlilegt horf …
Stefnt er að því að koma rekstri í eðlilegt horf á ný í álverinu í Straumsvík. Náið er fylgst með kerskálum ett og tvö. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Skálar eitt og tvö í álverinu í Straumsvík eru í gjörgæslu, náið er fylgst með þeim og er öryggi starfsmanna í fyrirrúmi, segir Reinhold Richter aðaltrúnaðarmaður starfsmanna í samtali við mbl.is um fund yfirstjórnar með starfsmönnum álversins í dag þar sem farið var yfir stöðu mála í kjölfar hættuástands sem skapaðist í kerskála þrjú á sunnudag.

Reinhold kveðst sáttur við viðbrögð yfirstjórnar álversins. „Það er líka nýtt súrál sem er betra og byrjað að blanda saman við þetta súrál sem olli þessum vandkvæðum. Þannig að þetta horfir allt til betri vegar. […] Það sem ég veit að er í gangi núna er að ker sem eru í gjörgæslu – útaf því að þau eru léleg eða veik – þau verða tekin út úr rekstri ef að myndast óeðlilega mikill hiti í þeim.“

Hann segir öll störf tryggð og að ákveðið hafi verið að stefna að því að endurræsa skála þrjú þegar það er tímabært. „Það veitir ekki af hverri hendi að endurræsa skálann og koma skikki á reksturinn aftur.“

Spurður hvort áhyggjur eru af því að slíkt hættuástand skapist á ný segir hann það spurningamerki hversu stórt hættusvæði skapast í kringum svona atvik. Á sunnudag myndaðist ljósbogi í lokuðu keri í kerskála þrjú. Var þá slökkt á skálanum til þess að koma í veg fyrir að hættulegar aðstæður myndu skapast.

„Það eru náttúrulega áhyggjur af því hvað hefði getað gerst og við höfum ekki upplifað þetta áður. Höfum ekki þekkingu á því að það hafi verið svona öflugur ljósbogi inni í keri og nú er okkur sagt að þetta hafi verið einangrað í kerinu, að það hafi ekki leitt til jarðar inn í grindina á húsinu eða eitthvað slíkt. En hversu stórt hættusvæði sé í kringum svona atburð – þegar gerist svona í keri – það hef ég ekki hugmynd um og kannski veit enginn, það er það sem maður veltir fyrir sér,“ segir Reinhold.

Hann bætir við að öryggi starfsmanna sé ávallt í fyrirrúmi og að hann telji þau mál í góðum farvegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert