Skrokkurinn allur „farinn til fjandans“

Björgvin Karl Guðmundsson er þaulvanur stórmótum en keppir nú í …
Björgvin Karl Guðmundsson er þaulvanur stórmótum en keppir nú í fyrsta sinn á slíku á Íslandi. Mynd/mbl.is

„Það kom mér ekki á óvart að hafa lent á palli því þetta var alltaf markmiðið. Það var ekki þannig að þetta hafi verið einhver draumakeppni fyrir mig eða æfingarnar hafi hentað mér rosalega vel heldur var þetta fyllilega verðskuldað myndi ég segja,“ segir Björgvin Karl Guðmundsson í samtali við mbl.is.

Björgvin náði frábærum árangri á nýafstöðnum heimsleikum í crossfit þar sem hann hafnaði í 3. sæti. Er mbl.is ræddi við hann var hann nýbúinn að skrá sig út af hótelinu í Madison í Wisconsin-ríki í Bandaríkjunum þar sem heimsleikarnir fóru fram og var á leiðinni til Chicago-borgar þar sem hann og fjölskyldan ætla að hafa það notalegt næstu daga.

Sjokk að klára loksins

Hann var eðlilega þreyttur og stífur eftir átök síðustu daga en engu að síður mjög sáttur með árangurinn og hress í bragði. Spurður hvernig skrokkurinn væri svaraði Björgvin hreinskilnislega:

„Hann er allur einhvern veginn farinn til fjandans. Þetta voru margir dagar, mikið stress og mikið af æfingum. Maður er stífur núna, en eftir nokkra daga verður maður orðinn góður aftur. Þetta eru svo mikil átök þannig maður er alveg eftir sig þegar mótið er búið og það er smá sjokk að klára,“ segir hann.

Eftir þrjár mjög krefjandi æfingar á lokadeginum í gær tóku við lyfjapróf hjá keppendum, verðlaunaafhending og svo fögnuður fyrir keppendur og aðstandendur. Það var mikið stuð segir Björgvin en hann orðinn ansi þreyttur um miðnætti og „alveg tilbúinn að fara sofa.“

Björgvin Karl Guðmundsson kom örmagna í mark í hitanum á …
Björgvin Karl Guðmundsson kom örmagna í mark í hitanum á föstudag eftir sex kílómetra sprett með þungan bakpoka. Ljósmynd/Ingi Torfi Sverrisson

Frábært að loka þriðja sæti

Markmið Björgvins fyrir heimsleikanna var að ná sæti á verðlaunapalli líkt og hann gerði árið 2015. Það tókst og er hann mjög stoltur af þeim árangri sem og bætingunni sem hefur átt sér stað hjá honum undanfarin ár.

„Ég er mjög sáttur með að hafa komist á pall en það er líka gaman að sjá að það er ekkert langt upp í fyrsta eða annað sætið. Það er miklu minni munur í ár heldur en árið 2015 þegar ég var frekar langt frá því,“ segir hann og bætir við:

„Ef hitt og þetta hefði gengið betur í byrjun keppni hefði maður mögulega getað verið að berjast um annað sæti en heilt yfir var þetta geðveikt og ég ætla ekki að kvarta neitt.“

Biðin eftir keppni meira stressandi en keppnin sjálf

„Ég var kannski ekki alveg í takti fyrstu tvo daganna. Ég svaf ekkert mjög vel fyrstu tvær næturnar en það er yfirleitt svoleiðis. Biðin eftir keppninni var erfiðust og dagarnir fyrir hana voru í rauninni meira stressandi en sjálf keppnin,“ útskýrir Björgvin.

Þó hann sé stoltur af árangrinum heyrist vel á Björgvini að hann er ekki saddur og ætlar sér stærri hluti í framtíðinni. Undirbúningur fyrir næsta mót hjá Björgvini hefst líka fljótlega eftir að hann kemur heim frá Chicago.

„Ég er ekkert að fara taka neina tvo mánuði í pásu. Þetta verða bara nokkrar vikur,“ bætir hann við að lokum.

Björgvin Karl skellti sér í ísbað eftir keppni á föstudaginn.
Björgvin Karl skellti sér í ísbað eftir keppni á föstudaginn. Ljósmynd/Þröstur Ólason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert