Fjórar íbúðir afhentar í kvöld

Blokkin sem um ræðir samanstendur af 68 íbúðum fyrir eldri …
Blokkin sem um ræðir samanstendur af 68 íbúðum fyrir eldri borgara. FEB hefur fundað með kaupendum og 17 af 23 hafa gengist við breyttum skilmálum. mbl.is/Árni Sæberg

17 af 23 kaupendum íbúða fyrir eldri borgara við Árskóga í Breiðholti hafa nú samþykkt breytta skilmála, sem kveða á um töluvert hærri greiðslur fyrir íbúðirnar en fyrri samningur gerði ráð fyrir.

Strax í kvöld stendur til að afhenda lykla að fjórum íbúðum í húsinu. Sagt hefur verið frá því að fólk fékk ekki lyklana afhenta fyrr en fyrir lá samþykki þeirra að breyttum skilmálum. Þær breytingar vörðuðu í sumum tilvikum auknum kostnaði upp á milljónir króna.

Stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, félagsins sem stendur að byggingu íbúðanna, fundaði nú í kvöld og sendi í kjölfarið frá sér bréf þar sem reifuð eru helstu álitamál í tengslum við breytingarnar sem gera þurfti á skilmálunum.

Þar kemur fram að stjórnin harmi hækkað verð en vinni nú hörðum höndum að því að leysa úr málinu. Hún virðist þegar komin vel á veg með það verk. Mikill meirihluti hefur fallist á breytt verð en „fjórir hafa viljað skoða málið frekar og leita ráðgjafar um stöðu sína. Lögmenn tveggja kaupanda hafa sent félaginu bréf um að þeir íhugi að leita til dómstóla,“ segir í bréfinu.

Gilda önnur lögmál um óhagnaðardrifna uppbyggingu 

Í bréfinu er talað um að þar sem um óhagnaðardrifið verkefni sé að ræða, sé eðlilegt að kostnaðaraukum sé dreift jafnt yfir hópinn. „Af ummælum lögmanna, sem fallið hafa í fjölmiðlum síðustu daga, má ráða að þeir líti svo á að um hefðbundin fasteignaviðskipti sé að ræða. Málið er þó ekki alveg svo einfalt,“ segir í bréfinu. „Þegar framkvæmdir hófust lá fyrir listi með nöfnum rúmlega fjögur hundruð félagsmanna sem lýstu yfir áhuga. Þannig gat félagið fengið lánsloforð frá bankanum sem þurfti til framkvæmdarinnar. FEB tók að sér hlutverk milliliðar án nokkurrar þóknunar í samræmi við markmið og tilgang félagsins,“ segir jafnframt.

Heildarkostnaður við að reisa fjölbýlishúsin tvö við Árskóga nam röskum fjórum milljörðum króna. Kostnaðurinn varð 401 milljón hærri en gert var ráð fyrir þegar að kaupsamningar voru gerðir. Þeim aukakostnaði hefur verið dreift á kaupendur hlutfallslega eftir því hve stóra eign þeir eru að kaupa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert