Segir upplýsingagjöf góða og húsnæðið tilbúið til kennslu

Framkvæmdir hafa staðið yfir í Varmárskóla í sumar.
Framkvæmdir hafa staðið yfir í Varmárskóla í sumar. mbl.is/Eyþór Árnason

Upplýsingaflæði til foreldra nemenda við Varmárskóla hefur verið samfellt og húsnæði skólans er tilbúið til kennslu eftir endurbætur í samræmi við tillögur EFLU. Þetta segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar við mbl.is.

Hann telur athugasemdir stjórnar Foreldrafélags Varmárskóla ekki eiga við rök að styðjast. Stjórn félagsins gagnrýnir að skólahald sé hafið í húsnæðinu þar sem framkvæmdir standa yfir og að fjölmörg rými eru enn með rakaskemmdum. Dæmi eru um að foreldrar hafi ekki sett börn sín í skólann vegna þessa. 

EFLA verkfræðistofa gerði úttekt á húsnæðinu síðasta vor og var farið í endurbætur samkvæmt tillögum EFLU auk þess var farið í viðhaldsvinnu á ytra byrði hússins, að sögn Haraldar.  Í sumar voru fjórir verktakar að störfum. 

„Framkvæmdum er að mestu leyti lokið. Þeir sérfæðingar sem unnið hafa með Mosfellsbæ að þessu máli eru sammála um að skólinn sé tilbúinn til notkunar,“ segir Haraldur og vísar til úttektar fulltrúa EFLU á endurbótunum. Núna er unnið meðal annars að lagfæra færanlegar kennslustofur. „Það verkefni var sett aftast í röðina samkvæmt ráðleggingum EFLU,“ segir Haraldur. Sú vinna fer ekki fram á skólatíma.  

Tveir upplýsingafundir voru haldnir í sumar í beinni útsendingu og farið var yfir framkvæmdir á skólanum. Haraldur bendir á að fréttir af framkvæmdunum voru settar á vef Mosfellsbæjar, á Facebook-síðu bæjarfélagsins og skólastjórnendur hafi upplýst foreldra með tölvupóstum. 

Skólastjórnendur í Varmárskóla, fulltrúar umhverfissviðs og verkfræðistofunnar EFLU halda fundi í byrjun september með foreldrum í hverjum árgangi fyrir sig þar sem meðal annars verður fjallað um stöðu framkvæmdanna sem er lokið í öllum meginatriðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert