Áfengisgjöld slaga upp í fjármagnstekjuskatt

Fjárlagafrumvarp næsta árs var kynnt í fjármálaráðuneytinu í dag.
Fjárlagafrumvarp næsta árs var kynnt í fjármálaráðuneytinu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áfengis- og tóbaksgjöld munu skila ríkinu 26 milljörðum króna á næsta ári, ef áætlanir ganga eftir. Er það litlu minna en fjármagnstekjuskattur, en af honum fær ríkið 33 milljarða króna.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp næsta árs í morgun en til stendur að leggja það fram á alþingi eftir helgi. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkisins verði 919,5 milljarðar, en þar af koma 817,3 milljarðar frá svokölluðum tekjustofnum ríkisins, sköttum og öðrum gjöldum. Það sem upp á vantar, um 100 milljarðar króna, skýrist af arðgreiðslum ríkisfyrirtækja, vaxtagreiðslum og þess háttar. 

Virðisaukaskattur er sem fyrr stærsti tekjustofn ríkisins, og stendur undir tæpum þriðjungi hans, um 259 milljörðum króna. Á hæla hans kemur tekjuskattur einstaklinga, en hann skilar 206 milljörðum, um 25%, þrátt fyrir að tekjuskattur lækki milli ára.

Þriðji stærsti tekjustofninn er tryggingagjöld, sem meðal annars er ætlað að standa undir atvinnuleysisbótum, fæðingarorlofsgreiðslum og sjúkragreiðslum. Tryggingagjald er nú 6,60% og hefur lækkað ár frá ári, frá árinu 2011 og stendur til að lækka það um 0,25 prósentustig, niður í 6,35%, um áramót. Mun sú lækkun kosta fjóra milljarða króna.

Þessi kostar skildinginn. Áfengisgjald skilar 20 milljörðum í ríkissjóð og …
Þessi kostar skildinginn. Áfengisgjald skilar 20 milljörðum í ríkissjóð og tóbaksgjald 5,9. AFP

Eftirsóknarvert að greiða fjármagnstekjuskatt

Það kann að vekja athygli einhvers hve litlu fjármagnstekjuskattur skilar í raun ríkinu, 33 milljörðum á ári, en eins og áður segir er það litlu meira en tekjur ríkisins af áfengis- og tóbaksgjöldum, og töluvert minna en sértekjur af ökutækjum og eldsneyti, sem nema 49 milljörðum. Hvort það er til marks um of lágan fjármagnstekjuskatt, eða skattpíningu áfengis- og bílkaupenda, má sjálfsagt deila um.

Þess má geta að það hefur lengi verið baráttumál listamanna að hugverk skuli teljast eignir og tekjur af þeim fjármagnstekjur í stað launatekna.

Það gekk eftir í sumarlok þegar alþingi samþykkti frumvarp þess efnis, og teljast nú bein­ar tekj­ur af nýt­ingu á verki vera fjármagnstekjur. Undir það falla til að mynda tekj­ur vegna flutn­ings verks í út­varpi eða tón­verks í leik­sýn­ingu, tekj­ur vegna notk­un­ar lista­verks á tæki­færiskort, tekj­ur vegna upp­lestr­ar úr út­gefnu bók­mennta­verki og svo framvegis.

Fjármagnstekjuskattur er 22% en hann var hækkaður úr 20% í …
Fjármagnstekjuskattur er 22% en hann var hækkaður úr 20% í tíð núverandi ríkisstjórnar. Eitt sinn var hann 10%. mbl.is/Hari

Sala á út­gáfu­rétti, bók­um, tónlist, mynd­verk­um, aðgöngumiðum á listviðburði og öðru slíku telst engu að síður til al­mennra tekna viðkom­andi og af greiðist tekjuskattur.

Þessari breytingu fögnuðu samtök tónlistarrétthafa, Samtón, og þótti „tímabær, réttlát og sanngjörn“. Greiða þeir nú aðeins 22% fjármagnstekjuskatt af tekjum sem áður skilgreindust öðruvísi og báru þá fullan tekjuskatt, 36,94% eða 46,24% eftir þrepum.

Munurinn á tekjuskatti og fjármagnstekjuskatti má í raun alfarið skrifa á útsvarsgreiðslur, þann hluta tekjuskattsins sem sveitarfélög leggja á, en útsvarið nemur að meðaltali um 14,44 prósentustigum á launatekjur. Sveitarfélögum er hins vegar ekki heimilt að skattleggja fjármagnstekjur með sama hætti.

Borg­ar­stjórn samþykkti á fundi sín­um á þriðju­dag að vísa til­lögu borg­ar­full­trúa Sósí­al­ista­flokks­ins um álagn­ingu út­svars á fjár­magn­s­tekj­ur til borg­ar­ráðs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert