Afstaða ríkisstjórnar að ekki gangi að semja

Frá dómsuppkvaðningu í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu síðasta haust. Afstaða ríkisstjórnarinnar …
Frá dómsuppkvaðningu í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu síðasta haust. Afstaða ríkisstjórnarinnar er, að sögn setts ríkislögmanns, að ekki sé hægt að semja á þeim forsendum sem Guðjón Skarphéðinsson lagði upp með. mbl.is/Hari

„Afstaða ríkisstjórnarinnar er sú að ekki sé hægt að semja á þeim forsendum sem hann [Guðjón Skarphéðinsson] lagði upp með.“ Þetta segir Andri Árnason, settur ríkislögmaður í málum er varða bótakröfur vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins.

Eftir að slitnaði upp úr viðræðum við sáttanefnd ríkisins stefndi Guðjón íslenska ríkinu til greiðslu skaðabóta, en greint var frá því í morgun að ríkið hefði hafnað öllum kröfum Guðjóns. „Ef mál fara fyrir dóm verða þau bara að fá að fara sinn veg,“ segir Andri. Því hafi ríkið ekki lagt fram gagntilboð í málinu er greinargerð var lögð fyrir héraðsdóm í gærmorgun.

Andri Árnason, settur ríkislögmaður.
Andri Árnason, settur ríkislögmaður. Ljósmynd/Aðsend

Þar með sé þó ekki sagt að ríkið sé ekki tilbúið til greiðslu skaðabóta, en fram kom í yfirlýsingu frá forsætisráðuneytinu í morgun, í tilefni fréttaumfjöllunar, að ríkið væri enn „tilbúið að semja um sanngjarnar bætur“.

Aðspurður segist Andri ekki geta gefið upp hversu háar þær bætur eru, en ljóst má vera að töluvert beri í milli. Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns, sagði í samtali við mbl.is í morgun að tilboð sáttanefndar ríkisins hefði hljóðað upp á um 100 milljónir króna, en áður hefur verið greint frá því að Guðjón fari með stefnunni fram á um 1,3 milljarða króna, um 790 þúsund krónur á dag fyrir árin, fjögur og hálft, sem hann sat inni.

Enn er vilji til þess hjá stjórnvöldum að semja um bætur, að sögn Andra. „Ef menn eru tilbúnir að lækka sínar kröfur myndi það mögulega renna stoðum undir sátt. En það er háð því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert