„Þessi ást ykkar á risastórum bílum ...“

„Göngustígar og gangbrautir eru það mikilvægasta og svo er þetta …
„Göngustígar og gangbrautir eru það mikilvægasta og svo er þetta spurning um að ná jafnvægi í plássi og forgangi fyrir gangandi vegfarendur,“ segir Walker. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stofnandi samtakanna Walk21 segir hátt hlutfall þeirra sem ferðast á milli staða með einkabíl í Reykjavík ekki koma á óvart miðað við það hvernig borgin er hönnuð. Þá segir hann mikilvægt að Íslendingar íhugi hvort áhrif umferðarmenningar á heilsu, loftslag og hamingju þjóðarinnar séu ásættanleg og að þeir finni jafnvægi á milli mismunandi samgöngumáta.

Jim Walker kom hingað til lands fyrir rúmum þremur áratugum og gekk um landið. Á ferðalaginu breyttist heimsmynd hans og í kjölfarið stofnaði hann alþjóðlegu samtökin Walk21 sem hafa það að markmiði að bæta aðgengi gangandi vegfarenda í borgum um allan heim.

„Ísland er mitt andlega heimili“

„Ferðalagið breytti lífi mínu. Ísland er mitt andlega heimili. Ég var nýskriðinn yfir tvítugt og hafði lagt stund á umhverfisfræði við háskóla en áttaði mig á því að öll sú náttúra sem við lærðum um var undir áhrifum frá mannfólkinu sem hafði ákveðið hverju ætti að halda og hverju ætti að henda. Það var ekki náttúrulegt og þess vegna vildi ég komast til Íslands.

Það var nokkuð erfitt á þeim tíma, en ég kom með fyrstu ferju vorsins til Seyðisfjarðar og fór með þeirri síðustu heim um haustið. Á þremur mánuðum gekk ég um Ísland, þá voru hér ekki margir ferðamenn og raunar ekki svo mikið af bílum. Ég las Biblíuna á göngunni svo þetta var eins konar pílagrímsferð mín í alvöru hrárri náttúru. Þetta gerði mér ljóst hvað skiptir mestu máli,“ útskýrir Walker. Hann starfaði við landvörslu í heimalandinu, Bretlandi, um tíma eftir Íslandsferðina, en ákvað síðan að einblína á að fólk fengi líka notið útivistar og náttúru innan borgar- og bæjarmarka.

Fjöldi bíla orðinn virkilega krefjandi

Í þetta sinn er Walker staddur hér á landi í tilefni evrópskrar samgönguviku. Þegar blaðakona sló á þráðinn til hans á ellefta tímanum á fimmtudagsmorgni kvaðst hann hafa verið á göngu um borgina, vel að merkja í grenjandi rigningu, í þrjár klukkustundir. „Þetta er besta leiðin til að kynnast borginni,“ segir Walker og þvertekur fyrir að veðrið sé ástæða þess að hann mæti fáu fólki á göngu sinni.

„Fólk hér er þrautseigt og undir veðrið búið. Það er ekki það að fólk vilji ekki nota fjölbreyttari ferðamáta heldur er þetta spurning um menningu. Ég kemst ekki hjá því að hugsa um þær breytingar sem orðið hafa á borginni síðan ég var hér fyrir þremur áratugum og hver þróunin í þessum málum hefur verið. Það er margt hér sem virkar vel, en fjöldi bíla er orðinn virkilega krefjandi. Það er áskorun að finna jafnvægið á milli bíla, bæði umferðarinnar sjálfrar og bílastæða, og gangandi vegfarenda og það er vandamál sem mun bara fara vaxandi ef þessari þróun verður ekki snúið við.

Jim Walker ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Sesselju Traustadóttur, framkvæmdastýru …
Jim Walker ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Sesselju Traustadóttur, framkvæmdastýru Hjólafærni á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Það er eins og ráð sé gert fyrir að allar ferðir séu farnar akandi,“ segir Walker og nefnir þar sem dæmi fjölda bílastæða við sundlaugar, sem þó séu nánast í hverju hverfi. Hann telur að hægt sé að byrja á að hvetja fólk til að fara þessar styttri ferðir, undir kílómetra eða tveimur, gangandi eða hjólandi.

„Göngustígar og gangbrautir eru það mikilvægasta og svo er þetta spurning um að ná jafnvægi í plássi og forgangi fyrir gangandi vegfarendur,“ segir Walker. Þá eru börn og eldri borgarar honum sérstaklega hugleikin og nefnir hann spítala sem dæmi. Á hönnunarmyndum af nýjum Landspítala sé mikið af gangandi og hjólandi fólki en þegar litið sé til raunveruleikans séu þar í kring ekkert nema bílar. Þá þykir honum það skjóta skökku við að fyrir utan Barnaspítalann sé skilti þar sem bent er á að bannað sé að reykja, en svo séu átta akreinar fyrir bílaumferð í næsta nágrenni.

Setur Ísland á stall með Nýja-Sjálandi

„En hér er margt sem virkar vel og hér er metnaður meðal stjórnmálafólks til að bæta þetta jafnvægi á milli akandi umferðar og annarra ferðamáta. Ég set Ísland á stall með Nýja-Sjálandi. Þetta eru þau tvö lönd þar sem mest von er á að breytt verði rétt. 

Jim Walker ásamt fræknu föruneyti á leið á ráðstefnuna Hjólum …
Jim Walker ásamt fræknu föruneyti á leið á ráðstefnuna Hjólum til framtíðar 2019. Ljósmynd/Aðsend

Ég held að þetta verði allt í lagi. En þessi ást ykkar á risastórum bílum, ef hún eykst og þeim fjölgar, þá verður virkileg áskorun að finna pláss fyrir þá alla. Það sem gerist er að þið munuð enda með Costco og alla þessa stórmarkaði í útjaðri borgarinnar sem munu soga lífið úr miðborginni. Allir keyra í búðina og heim og eini staðurinn sem fólk hittist er á gangi 23.“

Walker segist bjartsýnn á að Íslendingar finni þetta jafnvægi. Stundum þurfi þó til persónuleg áföll ráðamanna til að hrinda af stað breytingum og nefnir hann þar dæmi um bæjarstjóra í Iowa í Bandaríkjunum sem fékk hjartaáfall. „Læknirinn sagði honum að hann yrði að breyta venjum sínum og hreyfa sig meira. Hann keypti sér íþróttagalla og ætlaði út að ganga næsta morgun en komst að því að það væru engar gangstéttir í borginni. Hann fór í borgarráð og fékk þau svör að engar gangstéttir hefðu verið gerðar því í samfélaginu sem þau byggju í færu allir ferða sinna akandi.

Veðrið sé ekki notað sem afsökun

Nú er hann þekktur fyrir að setja alla borgina í megrun og allir fóru niður um buxnastærð því hann lét byggja göngu- og hjólastíga,“ segir Walker. Á Íslandi finni hann þó þegar að vilji sé til þess að gera betur í þessum málum.

„Ég held að hér á Íslandi séuð þið þekkt fyrir að vilja og gera hið rétta gangvart náttúrunni. Þeir sem hér eru við völd hafa alvöruvilja til að skapa hreinna, öruggara og betra land og ég held að þau séu nógu samstiga til að koma því í gagnið. En það þarf að tryggja að við notum ekki veðrið sem afsökun. Þetta snýst um svo miklu meira en það. Þegar ég sé fólk úti á Íslandi er ekki séns að það láti veðrið hafa áhrif á sig. Það aðlagast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert