„Þessi fundur sagði okkur fátt“

„Mér finnst þessi uppsögn yfirlæknis algjörlega forkastanleg og á sér …
„Mér finnst þessi uppsögn yfirlæknis algjörlega forkastanleg og á sér ekki hliðstæðu í íslensku heilbrigðiskerfi,“ sagði Jón Gunnar Þor­steins­son, sjúkraþjálf­ari á Reykjalundi, eftir starfsmannafundinn. mbl.is/Þórunn Kristjánsdóttir

„Þessi fundur sagði okkur fátt,“ sagði Jón Gunn­ar Þor­steins­son, sjúkraþjálf­ari á Reykjalundi, eftir starfsmannafundinn. Það eina gleðilega við fundinn var að Birgir Gunnarsson, fyrrverandi forstjóri Reykjalundar, mætti og kvaddi starfsfólk formlega. Heyra mátti lófatak fram úr salnum þegar hann gerði slíkt.  

Í síðasta mánuði var gerður starfslokasamningur við Birgi. Á fundinum greindi Birgir lauslega frá sinni hlið mála en ekki ástæðu brottrekstrar, að sögn Jóns Gunnars. Ekkert nýtt kom fram í máli Sveins Guðmundssonar, formann stjórnar SÍBS og forstjóra Reykjalundar, sem útskýrði uppsögn Magnúsar Ólasonar, fram­kvæmda­stjóra lækn­inga, í gær, að sögn Jóns Gunnars. 

„Mér finnst þessi uppsögn yfirlæknis algjörlega forkastanleg og á sér ekki hliðstæðu í íslensku heilbrigðiskerfi,“ sagði Jón Gunnar. Hann er einn af starfsmönnum Reykjalundar lýstu yfir vantrausti á stjórn SÍBS. 

„Við viljum að yfirstjórn staðarins komist í skikkanlegt horf til að staðurinn sé starfshæfur,“ sagði hann en vinnustaðurinn er „tæplega“ starfhæfur eins og sakir standa. „Framkoma sitjandi forstjóra Reykjalundar við starfsfólk er ólíðandi,“ segir hann.  

Ekki liggur fyrir hvort sjúklingar í endurhæfingu á Reykjalundi fái þjónustu á morgun en þeir fengu enga í dag. Samkvæmt bréfi frá landlækni sem Sveinn las upp á starfsmannafundinum í dag ber starfsfólki að veita skjólstæðingum þjónustu.  

mbl.is