„Ekkert annað en þjóðarmorð“

Hjónin Salah Karim Mahmood og Susan Rafik Hama hafa verið …
Hjónin Salah Karim Mahmood og Susan Rafik Hama hafa verið búsett á Íslandi í um 20 ár. mbl.is/Árni Sæberg

Fleiri hundruð þúsund íbúar norðurhluta Sýrlands hafa neyðst til þess að flýja heimili sín frá því Tyrkir gerðu innrás. Flestir þeirra eru Kúrdar. Susan Rafik Hama og Salah Karim Mahmood eru Kúrdar frá Sulaym­an­iyah í Norður-Írak en hafa verið búsett á Íslandi um langt skeið. Þau segja innrásina ekkert annað er þjóðarmorð á Kúrdum. 

Salah var 26 ára þegar hann kom til Íslands 8. nóvember 1996 en bróðir hans kom hingað áður með aðstoð Rauða krossins. Susan, kona hans, kom til Íslands fjórum árum síðar, á dimmum og köldum degi, aðfangadag árið 2000. Þau fengu bæði alþjóðlega vernd hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Kuldinn og myrkrið sem mætti Susan þegar hún kom út úr flugvélinni var ólíkt því sem hún átti að venjast frá Sulaymaniyah. Þar fer hitinn í 45 til 50 gráður á sumrin þegar heitast er og niður fyrir frostmark á veturna. Salah viðurkennir að honum hafi stundum þótt nóg um snjóinn fyrst eftir að hann kom hingað en þau eru bæði afar ánægð með að vera Íslendingar. Salah er menntaður tæknifræðingur og Susan er í doktorsnámi við menntavísindasvið Háskóla Íslands. 

„Það er mjög gott að búa á Íslandi og börnin okkar eru fædd hér og uppalin en foreldrar okkar, fjölskyldur og vinir búa í Sulaymaniyah og þegar eitthvað kemur upp á, eins og núna þegar Tyrkir hófu hernað gegn Kúrdum í Norður-Sýrlandi er erfitt að vera ekki hjá fólkinu sínu,“ segir Susan.

Tyrkir hófu lofthernað og sprengjuárásir á yfirráðasvæði Kúrda í norðanverðu Sýrlandi 9. október, árás sem Donald Trump Bandaríkjaforseti greiddi fyrir með því að fyrirskipa að bandarískir hermenn yrðu fluttir af svæðinu nokkrum dögum fyrr eftir símtal við forseta Tyrklands.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, tilkynnti um hernaðinn á Twitter og aðeins nokkrum mínútum síðar hófust loftárásir á byggðir Kúrda. Fleiri hundruð þúsund Kúrdar hafa síðan þá flúið heimili sín og tugir almennra borgara liggja í valnum. Meðal annars hafa um 12 þúsund farið yfir til Íraks, einhverjir eru komnir í flóttamannabúðir við landamæri Tyrklands og aðrir hafa farið til Íran eða eru á vergangi í eigin landi.  

Kúr­d­ar eru á milli 25 til 35 millj­ón­ir og tungu­mál þeirra er kúr­díska, sem aft­ur skipt­ist í fjöl­marg­ar mál­lýsk­ur. Flest­ir búa þeir á fjallend­um svæðum í Tyrklandi, Írak, Sýr­landi, Íran og Armen­íu. Á síðustu ára­tug­um hafa Kúr­d­ar átt sinn þátt í átök­um í Írak og Sýrlandi og hafa þeir gegnt stóru hlut­verki í bar­átt­unni gegn Ríki íslams (Daesh). Stærsti hluti Kúrda býr í Tyrklandi eða um 20% af tyrknesku þjóðinni.

Tyrkir hafa haldið úti hersveitum í norðurhéruðum Sýrlands frá í ágúst 2016. Tók herlið Tyrkja mikilvæga landamæraborg, Jarablus, á sitt vald og kom í veg fyrir að Kúrdahreyfingarnar YPG og Lýðræðisher Sýrlands (SDF) tækju svæðið og opnuðu leið inn í Kúrdahéraðið Afrin til vesturs af borginni, að því er fram kom í grein sem Ágúst Ásgeirsson blaðamaður ritaði í Morgunblaðið nýverið.

Kúrdar búa að mestu í fjórum löndum.
Kúrdar búa að mestu í fjórum löndum. AFP

„Talið er að 15% til 20% íbúa Íraks séu Kúrdar. Þeir hafa notið meiri réttinda en frændur í grannríkjunum en einnig sætt grimmilegu harðræði. Þeir hófu formlega baráttu fyrir sjálfsforræði 1946 er Mustafa Barzani stofnaði Lýðræðisflokk Kúrdistans. Það gekk lítt og kallaði hann flokksmenn til vopna árið 1961.

Seint á áttunda áratugnum hófu írösk stjórnvöld að senda arabíska landnema inn á svæði þar sem Kúrdar voru í meirihluta, ekki síst nágrenni olíuborgarinnar. Samtímis voru Kúrdar fluttir nauðungarflutningum til annarra svæða. Hert var á þessum aðgerðum á níunda áratugnum meðan á stríði Írana og Íraka stóð, en þar studdu Kúrdar málstað Írana. Saddam Hussein Íraksforseti reiddist Kúrdum og hóf hefndaraðgerðir gegn þeim árið 1988. Helsta ódæðið í þeim hernaði var er um 5.000 óbreyttir íbúar borgarinnar Halabja féllu í eiturefnaárás hersveita Saddams,“ segir í greininni í Morgunblaðinu nýverið.

Salah segir að Kúrdar hafi ekki stutt málstað Írana en samkvæmd lögum og reglum um herskyldu voru margir Kúrdar í herliði Saddams Hussein.

Þau Susan og Salah segja að meirihluti Kúrda hafi verið á móti stríðinu og ekki stutt málstað Saddams Hussein og flokks hans, Baath. Þess vegna hafi Kúrdar orðið landráðamenn í huga Saddams Hussein og þeir lent á milli steins og sleggju á landamærum Íraks og Írans. Þau minnast með hryllingi Anfal-herferðar forseta Íraks á árunum 1986-1989 sem kostaði yfir 180 þúsund Kúrda lífið.

Saddam Hussein forseti Íraks við réttarhöldin yfir honum vegna Anfal-þjóðarmorðanna.
Saddam Hussein forseti Íraks við réttarhöldin yfir honum vegna Anfal-þjóðarmorðanna. AFP

Eftir ósigur Íraka í Flóabardaganum 1991 tóku fjandmennirnir, sonur Barzanis, Massoud, og Jalal Talabani, leiðtogi Föðurlandssambands Kúrdistans, saman höndum og gerðu uppreisn gegn yfirvöldum í Bagdad. Hana barði her landsins harkalega niður og leiddi það til þess að flugbann var sett á norðurhluta landsins svo Kúrdar gætu notið sjálfstjórnar þar. Samþykktu KDP og PUK að deila völdum en upp úr sauð á milli flokkanna og fjögurra ára stríð braust út á milli þeirra 1994. Þeir störfuðu síðan hlið við hlið með fjölþjóðahernum í innrásinni 2003 sem leiddi til falls Saddams og deildu að nýju völdum í héraðsstjórn Kúrdistans (KRG) sem sett var á laggirnar tveimur árum seinna til að fara með stjórn mála í héruðunum Dohuk, Irbil og Sulaimaniya.

Massoud Barzani var útnefndur forseti héraðsstjórnarinnar og Jalal Talabani varð fyrsti forseti Íraks sem ekki er arabi. Í september 2017 var haldið þjóðaratkvæði um sjálfstæði bæði á Kúrdistansvæðinu og hinu umdeilda svæði sem náðist úr höndum hersveita Peshmerga 2014 en þar er m.a. að finna Kirkuk. Ríkisstjórn Íraks lagðist gegn kosningunum og lýsti þær ógildar. Rúmlega 93% hinna 3,3 milljóna kjósenda greiddu sjálfstæði og aðskilnaði frá Írak atkvæði. Héraðsstjórnin sagðist þar með komin með umboð til að hefja samningaviðræður við stjórnina í Bagdad en þáverandi forsætisráðherra Íraks, Haider al-Abadi, krafðist ógildingar kosninganna.

„Mánuði seinna endurheimtu hersveitir hliðhollar yfirvöldum í Bagdad svæðin þar sem Kúrdar fóru með yfirráð. Vonir þeirra um sjálfsforræði guldu við það afhroð auk þess sem það var þeim verulegt áfall að missa Kirkuk og þar með miklar olíutekjur úr höndum sér. Eftir að áhættuspil Barzanis hafði öfug áhrif við þau sem ætlast var til lét hann af völdum forseta svæðisins. Vegna deilna milli flokkanna var forsetastóllinn auður fram í júní 2019 er frændi hans Nechirvan tók við af honum,“ segir í grein Ágústs Ásgeirssonar.

Íraskir Kúrdar sýna hér stuðning sinn við Kúrda í norðurhluta …
Íraskir Kúrdar sýna hér stuðning sinn við Kúrda í norðurhluta Sýrlands. AFP

Salah segir að Kúrdar í Sýrlandi hafi gert  þegjandi samkomulag við stjórnvöld í Damaskus við upphaf stríðsins árið 2011 að taka ekki þátt og komu í kjölfarið upp sjálfstjórnarsvæðum í norðurhluta landsins. Sjálfstjórnarsvæði Kúrda, Rojava, nær yfir svæði eins og Afrin, Jazira, Efrat, Raqqa, Tabqa, Manbij, Kobane og Deir Ez-Zor.  

Í júní árið 2014 lýstu víga­sam­tök­in Ríki íslams yfir stofn­un kalíf­a­dæm­is á landsvæðum í Sýr­landi sem þau höfðu sölsað und­ir sig eft­ir átök við bæði stjórn­ar­her­inn og vopnaða hópa upp­reisn­ar­manna. Borg­in Raqqa var þá kom­in á vald víga­mann­anna og kölluðu þeir hana höfuðborg kalíf­a­dæm­is­ins. Sam­tím­is höfðu þeir náð yf­ir­ráðum á svæðum hand­an landa­mær­anna í Írak.

Í sept­em­ber þetta ár hóf hernaðarbanda­lag und­ir for­ystu Banda­ríkja­manna loft­árás­ir á her­búðir Rík­is íslams í Sýr­landi. Kúr­d­ar sem tekið höfðu upp sjálfs­stjórn á svæðum í aust­ur­hlut­um Sýr­lands og Tyrk­lands reynd­ust njóta góðs af þessu og stofnuðu Sýr­lensku lýðræðis­sveit­irn­ar (SDF) sem höfðu stuðning hernaðarbanda­lags­ins. Sveit­irn­ar tóku þátt í því að ná Raqqa úr hönd­um víga­manna Rík­is íslams sem tókst loks í októ­ber árið 2017.

Í janú­ar í fyrra hófu tyrk­nesk stjórn­völd hernað gegn varn­ar­sveit­um Kúrda (YPG) sem eru hryggj­ar­stykkið í Sýr­lensku lýðræðis­sveit­un­um (SDF). Stjórn­völd í An­kara eru því mót­fall­in að Kúr­d­ar fái sjálf­stæði og í mars á síðasta ári her­tóku þau Afr­in-hérað og ráku YPG-liða á flótta og kölluðu þá „hryðju­verka­menn“.

Tyrkir og Rússar standa saman að aðgerðum í Mardin-héraði í …
Tyrkir og Rússar standa saman að aðgerðum í Mardin-héraði í Norðaustur-Sýrlandi. AFP

Erdogan segir að hernaðurinn sé nauðsynlegur til að halda YPG-samtökunum í skefjum en kveðst einnig ætla að koma á „öryggissvæði“ á um 32 km breiðu belti við landamærin og flytja þangað megnið af þeim 3,6 milljónum Sýrlendinga sem hafa flúið til Tyrklands.

Tyrkneskir og rússneskir hermenn hófu í gær sameiginlegt eftirlit á svæðinu sem Tyrkir hafa náð yfirráðum yfir í norðurhluta Sýrlands eftir að hafa hrakið Kúrda sem þar bjuggu á flótta. Erdogan og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, undirrituðu samkomulag um samstarfið í síðustu viku. 

Salah segir að allt frá stofnun kalífadæmis Ríkis íslams (Daesh) hafi Tyrkir stutt vígasamtökin og margir vígamannanna sem eru Evrópubúar hafa notað Tyrkland sem bækistöðvar og farið þar í gegn til þess að berjast í Sýrlandi.  

Susan segir að það sem einkenni Kúrda sé þrautseigja og vilji til þess að veita öðrum aðstoð og fyrirgefa þrátt fyrir allar þær árásir sem Kúrdar hafa þurft að þola í gegnum tíðina. Ekki síst af hálfu Tyrkja og stjórnvalda í Írak. 

Í viðtali við mbl.is fyrir tveimur árum sagði Sus­an frá því að í valdatíð Saddam Hus­sein, for­seta Íraks, hafi verið komið fram við Kúrda á svipaðan hátt og hjá víga­sveit­um Rík­is íslams í Sýrlandi og Írak þar sem mark­visst var reynt að þurrka þá af yf­ir­borði jarðar. Í kring­um Mósúl hafa verið að finn­ast fjölda­graf­ir þar sem ír­ösk yf­ir­völd, und­ir stjórn Saddam Hus­sein og stjórn­mála­flokks hans Ba'­ath, grófu Kúrda lif­andi.

Talið er að Saddam Hus­sein hafi skipað fyr­ir um morð á 182.000 Kúr­d­um í An­fal-þjóðarmorðunum árið 1988. Meðal gagna sem lögð voru fram við rétt­ar­höld­in yfir ógnarstjórn Saddam í des­em­ber 2006 er fyr­ir­skip­un, sem send var 1. og 5. her­fylk­inu 21. ág­úst 1988, en þar seg­ir, að þau eigi að „byrja verkið á hörðum sérárás­um í því skyni að valda skelf­ingu meðal fólks“. Með „sérárás­um" var átt við efna­vopna­árás­ir, sinn­epsgas eða sa­rín.

Fjölmargir arabar frá Sýrlandi hafa á undanförnum árum flúið til norðurhluta Íraks þar sem flestir íbúarnir eru Kúrdar og segir Susan að á því svæði búi fólk yfirleitt í sátt og samlyndi. Fólk af ólíkum þjóðarbrotum og með ólíkar trúarskoðanir.

„Umburðarlyndi er eitt helsta einkenni Kúrda,“ segir Salah og bætir við að á sama tíma haldi  Erdogan því fram að þeir séu hryðjuverkamenn sem hann ætli að drepa. „Að tyrkneskir skriðdrekar muni keyra yfir Kúrda og drepa. Þetta eru stríðsyfirlýsingar sem ekki á að leyfa á 21. öldinni. Að hernema landsvæði í nágrannaríki þar sem stríð geisar líkt og Tyrkir hafa gert núna í Sýrlandi,“ segir Salah.

Íbúar borgarinnar Tal Tamr voru neyddir til að flýja heimili …
Íbúar borgarinnar Tal Tamr voru neyddir til að flýja heimili sín þegar Tyrkir hófu árásir á borgina. AFP

„Hugmyndafræði Erdogans er svipuð og forvera hans – að líta á Kúrda sem réttdræpa hryðjuverkamenn. Við þekkjum öll þjóðarmorð Tyrkja á Armenum en það sem er að gerast núna er ekkert annað en þjóðarmorð á Kúrdum. Hvenær verður þetta viðurkennt af alþjóðasamfélaginu?“ spyr Salah.

Varnir Kúrda eru veikar að sögn Salah og á sama tíma hýsi þeir mikinn fjölda vígamanna sem enginn vill taka við. Um er að ræða tugi þúsunda þegar allt er talið þar sem fjölskyldur vígamanna eru einnig þar. „Alls eru þetta um 80 þúsund manns sem þarf að fæða og klæða og Kúrdar ráða engan veginn við þetta á sama tíma og gerðar eru loftárásir á þá og efnahagsástandið er skelfilegt. Eitthvað af vígamönnunum hafa sloppið úr haldi og við erum að tala um hryðjuverkamenn sem eru til alls vísir,“ segir Salah.

Menn sem eru í haldi í Hasakeh-fangelsi Kúrda og eru …
Menn sem eru í haldi í Hasakeh-fangelsi Kúrda og eru grunaðir um að hafa tekið þátt í aðgerðum vígasamtakanna Ríkis íslams. AFP

Salah og Susan segja að virða eigi rétt Kúrda til eigin ríkis, Kúrdistan, þjóðfána og tungumáls. Erdogan er að þeirra sögn ekkert annað en einræðisherra sem á sér þann draum að endurvekja Ottómanveldið. „En þetta er liðin tíð og ekki möguleiki á því fyrir Erdogan en Erdogan óttast fátt eins mikið og að missa meira land, meðal annars til Kúrda,“ segir Salah.

Bandaríkin og Tyrkir eiga í miklu viðskiptasambandi og segir Salah að Trump hafi lýst því yfir að það sé búið að tryggja olíuna en minna fari fyrir því að tryggja hag íbúanna. Susan segir að þetta sé ekkert nýtt fyrir Kúrda sem hafa ítrekað verið sviknir af stórveldum vegna viðskiptahagsmuna. Því sé mikilvægt að stjórnvöld ríkja í Evrópu að standa við það sem þau segja. Meðal annars hvað varðar vopnasölu til Tyrklands.

Fram kom í máli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra á þingi Norðurlandaráðs í vikunni að samstaða sé meðal norrænu ráðherranna hvað varðar innrás Tyrkja inn í Sýrland. 

Íslensk stjórnvöld gagnrýna harðlega hernaðaraðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum í Sýrlandi og hafa komið þeirri afstöðu sinni á framfæri við tyrknesk yfirvöld með formlegum hætti. Hernaðaraðgerðirnar samræmast ekki alþjóðalögum og er þess krafist að Tyrkir hætti aðgerðunum þegar í stað og fylgi alþjóðalögum í hvívetna. Hernaður sem beinist að almennum borgurum og veldur manntjóni, eins og fregnir herma, er fordæmdur.

Liðsmenn Ríkis íslams í fangelsi í borginni Hasakeh.
Liðsmenn Ríkis íslams í fangelsi í borginni Hasakeh. AFP

Íslensk stjórnvöld hafa þungar áhyggjur af því að yfirstandandi hernaðaraðgerðir Tyrkja magni enn frekar ófriðarbálið á svæðinu og geri að engu þann árangur sem náðst hefur í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við Ríki íslams.

Á annað hundrað Kúrdar eru búsettir á Íslandi en mjög hefur fjölgað í þeirra hópi á síðustu tveimur árum. Ekki síst vegna ástandsins í Sýrlandi og Írak. Þeir hafa ekki enn komið sér upp félagi en eru með Facebook-síðu Ísland — Kúrdistan og eru bæði Kúrdar og Íslendingar skráðir þar.

Tvær mótmælagöngur voru haldnar í október í Reykjavík þar sem innrás Tyrkja var mótmælt og í dag, laugardag, klukkan 13 er ætlunin að koma saman við Hallgrímskirkju á alþjóðadegi Kobane og minnast árásanna á Kobane árið 2014 þar sem vígamenn Ríkis íslams herjuðu á Kúrda í borginni auk tyrkneska hersins.

Mikið jafnrétti ríkir milli kynjanna meðal Kúrda bæði hvað varðar atvinnuþátttöku og menntun. Eins þegar kemur að hernaði taka konur jafnan þátt á við karla. Réttindi kvenna eru miklu meiri í Kúrdistan en í nágrannalöndunum og þátttaka kvenna mikil í atvinnulífinu. Þær eru dómarar, ráðherrar og þingmenn og þykir ekki tiltökumál heldur eðlilegt, segir Susan.

Salah bætir við að hernaður kvenna hafi reynst liðsmönnum Ríkis íslams erfiður því þeir telja að ef þeir falla fyrir hendi konu fari þeir ekki til himnaríkis heldur helvítis. Þannig að þeir frömdu frekar sjálfsvíg heldur en að verða drepnir af konu. Þetta stendur hvergi í Kóraninum og túlkun þeirra á íslam er ekki í neinu samræmi við það sem stendur í Kóraninum. Það sem Tyrkir eru að gera núna er ekki stríð gegn vígamönnum heldur Kúrdum.  

Þrátt fyrir að Kúrdar eigi sitt tungumál segir Susan að því miður tali ekki allir Kúrdar kúrdísku þar sem þeim hefur víða verið bannað að tala sitt tungumál. Þau Salah eru frá Sulaym­an­iyah og þar var kennd kúrdíska en þau hafi ekki fengið að læra sögu Kúrda. „Við lærðum söguna sem Saddam Hussein vildi að við lærðum, sögu araba, á kúrdísku en ekki okkar eigin sögu,“ segir hún.

Susan Rafik Hama og Salah Karim Mahmood eru Kúrdar frá …
Susan Rafik Hama og Salah Karim Mahmood eru Kúrdar frá Sulaym­an­iyah í Norður-Írak en hafa verið búsett á Íslandi um langt skeið. mbl.is/Árni Sæberg

Susan og Salah höfðu alltaf búið við stríð og ótryggt ástand þangað til þau komu hingað en hún var 24 ára þegar hún kom til Íslands og Salah var 26 ára. Foreldrar þeirra, sem búa enn í Norður-Írak hafa aldrei búið við annað en stríð. „Samt sem áður eru vinir okkar og fjölskyldur líkt og aðrir á þessu svæði að veita Kúrdum í Sýrlandi stuðning með því að senda hjálpargögn yfir landamærin,“ segja þau hjón.

Susan og Salah búa í Kópavoginum ásamt tveimur börnum sínum sem eru 14 og 16 ára. Sem íslenskir ríkisborgarar geta þau ferðast frjáls en ástandið á þeirra heimaslóðum er ótryggt og ferðalagið langt og flókið. Í dag myndu þau ekki hætta á að komast þangað í gegnum Tyrkland vegna þess hvernig staðan er. „Ég varð fyrir því síðast þegar ég fór að þeir tóku tölvuna mína og ég fékk hana ekki í hendur fyrr en ég var komin til Bretlands. Ég viðurkenni að ég var mjög áhyggjufull enda með mikið af gögnum tengdum mínum rannsóknum í henni,“ segir Susan.

Börnin okkar eru fædd hér og hafa aldrei búið annars staðar og við erum öll Íslendingar en um leið Kúrdar segja þau Susan og Salah þegar blaðamaður kveður þau á heimili þeirra í Kópavogi í gær. 

Í október 2014 þýddi Susan bréf 19 ára gamallar stúlku í Kobane sem hún ritaði til móður sinnar. Unga konan lést í árásum á borgina og nágrenni. Bréfið var birt á Vísi í lok október 2014.

Aylan Kurdi var á flótta frá Kobane ásamt fjölskyldu sinni …
Aylan Kurdi var á flótta frá Kobane ásamt fjölskyldu sinni þegar hann drukknaði við strönd Tyrklands. AFP

Bréf frá Kobane

Þetta bréf er ekki skrifað af Kleópötru, drottningu Egyptalands 30 f. Kr., sem reyndi að verja konungsríki sitt fyrir Rómverjum, það er ekki ritað af Esther, gyðingastúlkunni, sem bjargaði gyðingum frá útrýmingu í Persaríki, en það er frá stúlku sem líkt og þær reis upp gegn ranglæti og ofbeldi. Bréfið er frá ungri baráttukonu í Kobane í Kúrdistan til mömmu hennar, til heimsins alls. Þessi unga kona barðist við öfgahópa og fórnaði lífi sinu fyrir mig og þig og mannkynið. Bréfið er skrifað á arabísku sem endurspeglar þá staðreynd að stjórnvöld  á þessu svæði eru á móti því að Kúrdar læri sitt eigið tungumál.


Elsku besta mamma, ég hef það fínt. Í gær héldum við upp 19 ára afmælið mitt. Ég held að ég sé 19 ára. Azand vinur okkar söng fyrir okkur lag um mömmu. Það minnti mig á þig og ég fór strax að gráta. Azad er með mjög fallega rödd, hann fór sjálfur að gráta vegna þess að hann hafði ekki séð mömmu sína í eitt ár. Við hjúkruðum einum af vinum okkar í gær sem fékk tvö skot í sig, hann vissi sjálfur um eitt og benti á efri hluta bringunnar en hann fékk einnig skot í mittið, hann þurfti á blóði að halda og ég gaf honum mitt blóð.

Við erum í Austur-Kobane mamma, það eru ekki nema 100 metrar á milli okkar og hryðjuverkamannanna. Við sjáum svarta fánann þeirra. Við heyrum samtal þeirra og reynum að skilja þá en við skiljum þá ekki því þeir nota öðruvísi tungumál, en við vitum að þeir eru hræddir.

Við erum hópur af níu ungum einstaklingum. Sá yngsti í hópnum heitir Rasho, hann er frá Afrin. Hann hefur tekið þátt í baráttu gegn hryðjuverkahópum annars staðar eins og í Tel Beida og nú vill hann verja borgina með okkur. Alan kemur næst, hann er frá Qamishlo. Hann er af vel efnaðri fjölskyldu sem er kölluð Qadubag, hann hefur einnig tekið þátt í stríðsátökum. Hann segir að hann sé 20 ára. Hann bætti svo við að hann var pínu óþekkur þegar hann var krakki, síðan hló hann og sagði að hann hafi meira að segja verið ástfanginn af nágrannastelpu hans sem hét Aveen. Elstur í hópnum er hann Darseem frá Qandeel en konan hans var líflátin (drepin) af Tyrkjum í Diarbakir. Darseem á eina stelpu, Helen heitir hún og hann er með húðflúr af nafni hennar á handleggnum. Darseem segir að hann hafi ekki enn séð dóttur sína.

Við erum í húsi fyrir utan bæ, mamma, við vitum ekki hver eigandinn er. Á veggnum hanga tvær myndir, ein er af gömlum manni og hin er af ungum dreng. Svört slaufa er í kringum myndina af unga drengnum sem þýðir að hann hefur dáið eða verið drepinn af öfgahópnum. Einnig er mynd af Qasi Muhammed, Mula Mustafa Barzani og gamalt kort af Ottóman sem er 400 ára gamalt og ég sé nafn Kúrdistan á því.

Það er langt síðan við drukkum kaffi, mamma, en við lærðum að lífið er fallegt með eða án kaffis. Ég verð að viðurkenna mamma að það er ekki til bragðbetra kaffi en kaffið þitt.

Við erum að verja saklausa borg, borg sem hefur aldrei gert öðrum mein heldur hefur veitt öðrum, sérstaklega Sýrlendingum, skjól og hjálp. Í þessari borg búa múslimar, það sést mjög vel vegna hversu margar moskur eru í borginni. Við ætlum ekki einungis að hjálpa þeim heldur ætlum við líka að verja menningu og helga staði þeirra frá Tatar u Maxol (miðaldaöfgahópum sem komu frá Mið-Asíu og gerðu það sama og ISIS gera í dag).

Ég heimsæki þig, mamma, þegar þessu stríði, sem ekkert okkar bjóst við, lýkur. Vinur minn Darseem vill líka sjá þig áður en hann fer aftur til Diarbakir til að faðma Helenu, dóttur sína. Við söknum ykkar öll mamma og við hlökkum til að sjá ykkur en þetta stríð skilur ekki hvað það þýðir að sakna. Ég sé þig kannski ekki aftur en vertu viss, mamma mín, að mig hefur dreymt um þig mjög oft en það eru kannski ekki mín örlög að sjá þig aftur.

Ég er alveg viss um að þú komir til Kobani einn daginn í leit að húsinu þar sem ég lifði síðustu stundir mínar og kannski finna ilminn af mér. Þetta hús er í austurhluta borgarinnar og á því eru mörg göt af völdum leyniskyttna. Húsið er með græna útidyrahurð og hún er líka mjög götótt. Það eru einnig þrír gluggar, einn af þeim er austan megin.
Þú sérð nafnið mitt skrifað með rauðu bleki. Þú munt sjá að bak við þennan glugga kvaddi ég lífið. Ég stóð þar og horfði á hvernig sólargeislarnir komu inn í herbergið í gegnum kúlnagötin.

Mamma, á bak við þennan glugga söng Azad síðasta mömmulagið fyrir okkur. Röddin hans var eins falleg og fjöllin. Hann var með dásamlega rödd þegar hann sagði:

„Ég sakna þín mamma, ég sakna þín.“

mbl.is

Bloggað um fréttina