Rauð viðvörun á Ströndum

Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurstofa Íslands hefur gefið út rauða viðvörun vegna norðan ofsaveðurs og stórhríðar á Ströndum og Norðurlandi vestra.

Rauð viðvörun hefur aldrei áður verið gefin út vegna veðurs hér á landi. Annars staðar á landinu eru appelsínugular og gular viðvaranir. Búast má við því að stormurinn skelli á síðdegis á morgun.

„Spáð er norðan ofsaveðri eða fárviðri (25 til 33 m/s) með mikilli snjókomu og skafrenningi. Búast má við víðtækum samgöngutruflunum og tjóni og/eða slysum ef aðgát er ekki höfð. Ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda, allt að 10 m ölduhæð og líkur á að smábátar geti laskast eða losnað frá bryggju. Fólki er bent á að fylgjast vel með veðurspám og viðvörunum,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar vegna rauðu viðvörunarinnar.

Lögreglan á Vestfjörðum hvetur til þess að fólk sé ekki á ferðinni að nauðsynjalausu.

Þá er hvatt til þess að fólk tryggi alla lausamuni, þ.e.a.s. að þeir fjúki ekki og valdi slysum eða fokskemmdum. Loks eru eigendur eða umráðamenn skipa og báta hvattir til að huga að þeim.

mbl.is