8 kafarar meðal þeirra 80 sem leita

Frá vettvangi leitarinnar í Sölvadal í nótt.
Frá vettvangi leitarinnar í Sölvadal í nótt. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Um 80 manns koma að leitaraðgerðum í Sölvadal í Eyjafirði þar sem unglingspiltur féll í Núpá í gærkvöldi. Þar af eru átta kafarar, auk þess sem leitarhundur er til taks.

Samkvæmt upplýsingum frá Hermanni Karlssyni, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, sem staddur er í aðgerðastöðinni á Akureyri, er fullur þungi í leitinni nú á meðan mestrar dagsbirtu nýtur.

„Veður er eiginlega óbreytt og það er ekki gott. Það er skafrenningur og ofankoma af og til sem hjálpar ekki,“ segir Hermann í samtali við mbl.is. Leitarsvæðið er helst fyrir neðan stífluna þar sem pilturinn féll í ána og eftir atvikum önnur svæði. „Krapi og slíkt torveldar ofboðslega mikið leitina.“

Von er á aukamannskap sem kemur norður með flugvél danska hersins. Áætlað er að hún lendi á Akureyrarflugvelli nú síðdegis. Hún flytur einnig búnað en að sögn Hermanns er aðallega um að ræða búnað sem notaður verður til að koma aftur á rafmagni á Norðurlandi. „Mannskapurinn tengist þessu verkefni í Sölvadal en búnaðurinn öðrum verkefnum,“ útskýrir Hermann.

Þá er þyrla Landhelgisgæslunnar til taks á Akureyri, en hún hefur ekki verið notuð við leitina það sem af er degi. 

Laust fyr­ir kl 22:00 í gær­kvöldi barst lög­regl­unni á Norður­landi eystra til­kynn­ing um að maður hefði fallið í Núpá en hann hafði verið við ann­an mann að vinna við stíflu sem er í ánni þegar krapa­skafl hreif hann með sér.

mbl.is