Maðurinn enn ófundinn

mbl.is/Hari

Maðurinn sem féll í Núpá í Sölvadal, inn af Eyjafirði, í gærkvöldi er enn ófundinn, að sögn Jóhannesar Sigfússonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns á Norðurlandi eystra. Verið var að skipta út leitarmönnum en tíu manna hópur kom á vettvang í nótt með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Von er á fleiri leitarmönnum á staðinn sem og tæki en aðstæður til leitar eru erfiðar. 

Mjög mikið myrkur er á leitarsvæðinu og gengur á með éljum. Það er kalt og mikil vindkæling og því aðstæður erfiðar til leitar. Mikill krapi er í ánni sem gerir leitarmönnum erfitt um vik.

Aðgerðastjórn almannavarna á Akureyri var mönnuð vegna verkefna sem tengjast óveðrinu og er aðgerðum vegna þessa máls stjórnað þaðan, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Þegar blaðamaður mbl.is ræddi við Jóhannes skömmu fyrir klukkan sex í morgun var að hefjast stöðufundur á Akureyri þar sem næstu skref í aðgerðinni verða ákveðin.

Laust fyrir kl 22:00 í gærkvöldi barst lögreglunni á Norðurlandi eystra tilkynning um að maður hefði fallið ána en hann hafði verið við annan mann að vinna við stíflu sem er í ánni þegar krapaskafl hreif hann með sér.

Þegar var allt tiltækt lið björgunarsveita sent á vettvang ásamt lögreglumönnum og lækni. Erfiðlega gekk að komast á vettvang vegna ófærðar og þurfti að fá snjóruðningstæki til að fara á undan. Erfiðlega gekk að ná aftur sambandi við tilkynnanda á vettvangi vegna aðstæðna. Björgunarsveitarmenn á vélsleðum voru fyrstir á staðinn og hófu upplýsingaöflun og leit, segir í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Á fimmta tug leitarmanna er að störfum á vettvangi, bæði kafarar og læknir. Leitað er með ánni og eins hafa kafarar leitað á völdum stöðum í ánni. 

mbl.is