Hertrukkurinn Lilli mikilvægur í heimavitjunum

Ásta Hlín Ólafsdóttir, ljósmóðir hjá Björkinni, lét óveðrið um helgina …
Ásta Hlín Ólafsdóttir, ljósmóðir hjá Björkinni, lét óveðrið um helgina ekki aftra sér frá því að fara í heimavitjanir, heldur fékk hún hertrukk lánaðan. Ljósmynd/Aðsend

Lægðagangur janúarmánaðar hefur haft ýmis áhrif í samfélaginu, víðs vegar á landinu. Ljósmóðir hjá fæðingarstofunni Björkinni greip til þess ráðs í aftakaveðrinu síðasta sunnudag að fara í vitjanir á breyttum Chevrolet-hertrukk. 

„Á sunnudagskvöldinu þurfti ég að fara í tvær vitjanir, þar af til konu sem hafði fætt fyrr um daginn. Við förum alltaf í vitjun frekar stuttu eftir að kona fer heim þannig að ég varð að fara þarna um kvöldið,“ segir Ásta Hlín Ólafsdóttir, ein sex ljósmæðra sem starfa hjá Björkinni, sem tók til starfa á vormánuðum 2017 og er fyrsta fæðingarstofan sem starfrækt er hér á landi frá 1996, þegar fæðingarheimilinu við Eiríksgötu var lokað. 

Ferð Ástu var heitið annars vegar í Mosfellsbæ og hins vegar í efri byggðir Kópavogs. „Ég lagði ekki í að fara á mínum litla smábíl, það var orðið svo þungfært. Þar sem eiginmaðurinn á þennan svaka trukk bauðst hann til að fara með mér í vitjanir, karlræfillinn, hann lét sig hafa það að eyða sunnudagskvöldinu með konunni í vinnunni,“ segir Ásta og hlær. „En hann hafði mjög gaman af þessu.“ 

Ákvörðunin var skynsamleg þar sem færðin var ansi þung. „Það kom í ljós að ég hefði ekki komist í aðra af þessum vitjunum nema á jeppanum þar sem bílar sátu fastir í hringtorgum í Kópavogi. Það þurfti á þessu að halda.“

Vitjanirnar gengu því eins og í sögu. Árið hefur farið af stað með hvelli, ekki einungis veðurfarslega séð, en ljósmæður Bjarkarinnar hafa tekið á móti níu börnum frá áramótum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ásta fer í vitjun á hertrukknum. „Þetta er búið að vera svolítið fjör en á sama tíma svolítið óvanalegur tími, en við ljósmæður þurfum að fara í vitjanir á öllum tímum, sama hvort það eru hátíðisdagar, helgar eða virkir dagar og sama hvernig viðrar.“

Trukkurinn er í eigu eiginmanns Ástu Hlínar og nýtist vel …
Trukkurinn er í eigu eiginmanns Ástu Hlínar og nýtist vel jafnt á fjöllum sem og í byggð, þegar færðin er þung. Ljósmynd/Aðsend

Hertrukkurinn „Lilli“ með glæsilega afrekaskrá

Hertrukkurinn, sem ber nafnið „Lilli“ hefur komið víða. Trukkurinn er sem fyrr segir í eigu eiginmanns Ástu sem á hann í félagi við tvo frændur sína. Um er að ræða gamlan Chevrolet-hertrukk sem búið er að eiga talsvert við. 

Afrekaskrá Lilla er athyglisverð, en hann hefur til að mynda komið við sögu í Top Gear-þætti og verið leigður út til tökuliðs Game of Thrones við töku á þáttunum hér á landi. Ásta tekur þó undir þegar blaðamaður spyr hvort mikilvægasta hlutverk Lilla sé ekki að koma að umönnun nýfæddra barna og mæðra þeirra. „Jú, ég myndi segja það, þetta er mikilvægasta hlutverkið hans hingað til.“ 

Útlit er fyrir að aðeins sé að draga úr veðurofsanum, að minnsta kosti næstu daga. Ásta segir það þó góða tilfinningu að vita af Lilla. „Hann stendur mér til afnota ef á þarf að halda og hann drífur allt þessi bíll.“

mbl.is

Bloggað um fréttina