„Erum í miðri ánni“

„Við erum í miðri ánni, miðju verkefninu sem stendur,“ sagði Katrín Jakobsdóttir að loknum fundi í samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð í morgun. Enn sé verið að meta aðstæður en ljóst er að mikið átak þarf til að veita íbúum á Vestfjörðum aðstoð.

Atburðirnir rifji upp erfiðar minningar um snjóflóðin sem féllu fyrir 25 árum. „Ég tala fyrir munn okkar allra, allra Íslendinga. Þessir atburðir rifja upp hina skelfilegu atburði 1995 sem sitja enn í okkur öllum. Það er alveg ljóst að miklar tilfinningar hafa vaknað við þessa atburði,“ segir Katrín í samtali við mbl.is sem má sjá í myndskeiðinu.

Hún segir ríkisstjórnina ekki vera að grípa til neinna sérstakra aðgerða að svo stöddu en afleiðingar atburða undanfarinna vikna þar sem slæmt veður hefur haft alvarlegar afleiðingar víða um land séu í stöðugri skoðun. Ljóst sé að aukafjárveitingar eru nauðsynlegar til að bregðast við þeim.  

mbl.is