Flóðbylgjan ekki eins há og talið var

Flóðbylgjan flæðir upp á land skammt frá íbúðarhúsi. Í bakgrunni …
Flóðbylgjan flæðir upp á land skammt frá íbúðarhúsi. Í bakgrunni hægra megin sést í flóðbylgjuna þar sem hún er rétt fyrir utan sjóvarnargarð innar í þorpinu, nær höfninni. Ljósmynd/Einar Ómarsson

Allt bendir til þess að flóðbylgjan sem náði til íbúðarhúsa á Suðureyri á þriðjudagskvöld hafi verið stór en ekki er talin ástæða til að hafa áhyggjur af mikið stærri flóðbylgju á þessu svæði.

Þetta segir Sigríður Sif Gylfadóttir, sérfræðingur í ofanflóðahættumati hjá Veðurstofu Íslands.

Snjóflóð féll úr gilinu ofan við Norðureyri um kl. 23:05 og á Suðureyri var háflóð um kl. 23:15 og stórstreymi, svo sjávarstaða var með hæsta móti. Það hefur gert flóðbylgjuna stærri en ella.

„Við fórum þarna í gær og mældum nákvæmlega hversu langt upp á land hún náði, auk þess að ræða við heimamenn. Það kemur í ljós að þetta lítur töluvert betur út en kannski fyrstu fréttir bentu til,“ segir Sigríður Sif.

Hér sést hversu langt flóðbylgjan náði upp að bílskúr Einars …
Hér sést hversu langt flóðbylgjan náði upp að bílskúr Einars Ómarssonar, sem tók ljósmyndina. Ljósmynd/Einar Ómarsson

Varnargarðurinn gerði mikið gagn

Eftir að snjóflóð féll í hlíðinni rann það í sjóinn og náði að ryðja upp flóðbylgju sem ferðaðist yfir Súgandafjörð í átt að íbúðabyggð. Þar brotnaði flóðbylgjan á sjóvarnargarði og frussaðist upp sjór á nærliggjandi svæði „Það er í rauninni sá partur sem nær lengst inn og hefur mestu áhrifin sem fólkið fann fyrir,“ útskýrir Sigríður Sif og telur að varnargarðurinn hafi dregið vel úr krafti bylgjunnar og gert mikið gagn.

Sjórinn kastaðist þannig yfir húsin á mikilli ferð og í einu þeirra hélt fólk að það væri komið steypiregn því sjórinn fór á þakið og streymdi fram af þakkantinum.

Frá Flateyri í dag.
Frá Flateyri í dag. mbl.is/Hallur Már

Einhverjir bílar færðust til 

Krafturinn í flóðbylgjunni næst strandlínunni var það mikill að einhverjir bílar færðust til auk þess sem skemmdir urðu á geymsluhúsnæði. Á bíl sem stóð í 7-8 metra fjarlægð frá varnargarðinum höfðu speglarnir, sem standa 130 cm yfir jörðu, lagst aftur og hann flotið upp og færst um 2 metra. Krafturinn í frussinu var það mikill að það sér aðeins á nokkrum bílum sem lagt var nálægt varnargarðinum.

Ljósmynd/Steinunn Ása Sigurðardóttir

Hnédjúpur, krapablandinn sjór

Að sögn Sigríðar var flóðbylgjan sem gekk á land ekki eins há og talið var í fyrstu. Hún var nógu há til að fara yfir varnargarðinn og á landi var hnédjúpur, krapablandinn sjór, sumstaðar upp á mið læri. „Fyrir áhrif varnargarðsins kastast sjór hátt í loft upp og nær jafnvel upp á glugga á efri hæð, en meginflóðbylgjan var miklu lægri,“ segir hún.

Lífi fólks ekki mikil hætta búin 

Sigríður og samstarfsmenn ætla að útbúa líkan til að fá betri hugmynd um hæðina á fyrstu flóðbylgjunni sem skall á varnargarðinum, áður en sjórinn náði til lands. Erfitt er að gera sér grein fyrir því núna hversu há hún var og kraftmikil. „Það bendir allt til þess að þetta hafi verið mjög stórt snjóflóð auk þess sem sjávarstaða var há, svo það er ekki talin ástæða til að hafa miklar áhyggjur af stærri flóðbylgju þarna.“ Ekki hefði verið ákjósanlegt fyrir fólk að vera úti þegar hún gekk yfir, þó svo að lífi fólks hafi líklega ekki verið mjög mikil hætta búin nema hugsanlega í næsta nágrenni við strandlínuna, en líkanreikningar munu hjálpa til við að meta möguleg áhrif flóðbylgna á Suðureyri.

Þyrla Landhelgisgæslunnar á Flateyri.
Þyrla Landhelgisgæslunnar á Flateyri. Ljósmynd/Óttar Guðjónsson

Engin rýmingaráætlun vegna flóðbylgjuhættu

Ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands kom því á framfæri við almannavarnir að í veðrinu sem framundan var væri möguleiki á flóðbylgju á Suðureyri. Almannavarnir komu upplýsingum áfram til hafnaryfirvalda. Ekki er til sérstök rýmingaráætlun vegna flóðbylgjuhættu og einungis var rýmt eftir að atburðurinn átti sér stað vegna möguleika á öðru snjóflóði og annarri flóðbylgju. Þá var fólk vakið og flutt á hótel. Ekki er talið að fólki í húsum sé mikil hætta búin af þessum flóðbylgjum en íbúar eru margir meðvitaðir um hættuna.

Síðasta flóðbylgja gekk á land á Suðureyri í október 1995. Snjóflóð féll þá úr hlíðinni innan við Norðureyri. Metið verður í framhaldi af þessu hvers konar viðbúnaðaráætlun eigi best við.

Í dag ætlaði starfsfólk Veðurstofu Íslands að mæla upptakasvæði flóðsins með lasertæki til að gera sér hugmynd um rúmmál þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert