„Þetta var vissulega stressandi lífsreynsla“

Farþegar fluttir frá borði með aðstoð viðbragðsaðila.
Farþegar fluttir frá borði með aðstoð viðbragðsaðila. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var venjuleg lending þangað til það brotnaði undan vélinni hjólið, en það eru allir heilir á húfi þannig þetta fór eins vel og þetta gat farið. Þetta var mjög vel gert hjá flugmönnunum,“ segir Jóhann Steinn Eggertsson, sem var um borð í vél Icelandair þegar hjólabúnaður brotnaði undan henni í lendingu fyrr í dag.

Ljósmynd/Aðsend

Atvikið átti sér stað um klukkan hálffjögur, en vélin var að koma frá Berlín. Þegar blaðamaður náði tali af Jóhanni var hann kominn inn í flugstöðina, en hann segir farþegana hafa þurft að bíða um hálftíma um borð.

Rauðu hættustigi var lýst yfir á flugvellinum vegna atviksins og samhæfingarstöð almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra virkjuð. 166 voru um borð í vélinni, 160 farþegar og 6 manna áhöfn.

Ljósmynd/Aðsend

Aðspurður hvort fólk um borð hefði orðið hrætt segir Jóhann flesta hafa haldið ró sinni en þetta hafi verið frekar óskemmtileg reynsla. „Þetta var vissulega stressandi lífsreynsla.“

Hann lýsir atvikinu þannig að vélin hafi verið komin niður á jörðina þegar hjólabúnaðurinn brotnaði og í kjölfarið hafi hún fallið á hliðina og lagst á hreyfilinn. Farþegarnir fundu vel fyrir þessu að sögn Jóhanns. „Þetta var frekar óþægilegt.“

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is