Víðir einn og yfirgefinn á lokuðu hóteli

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn dvelur á hóteli en ekki Þórólfur Guðnason …
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn dvelur á hóteli en ekki Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn þarf ekki að flytja af hótelinu Reykjavík Natura við Reykjavíkurflugvöll, þar sem hann hefur dvalið undanfarið, þrátt fyrir að hótelinu hafi verið lokað tímabundið. Honum var boðið að vera áfram og segist vera „í stærsta einbýlishúsi á landinu“.

Í síðustu viku greindi Víðir frá því að hann væri fluttur á hótel vegna þess að eiginkona hans og dóttir eru í sóttkví vegna kórónuveirunnar. Hann hefur dvalið á Reykjavík Natura enda er mjög stutt þaðan í stjórnstöð almannavarna í Skógarhlíð.

„Það er búið að loka hótelinu en ég er þar enn þá og fæ að vera eins og ég þarf,“ segir Víðir. Vaktmenn eru á hótelinu en engin önnur starfsemi.

„Ég hef það notalegt í stærsta einbýlishúsi á landinu,“ segir Víðir.

Yfirlögregluþjónninn hvatti landsmenn í gær til að taka veirulausan klukkutíma í gærkvöldi milli klukkan átta og níu. Sjálfur náði hann ekki alveg klukkustund án veirutengdra verkefna.

„Ég talaði við fjölskylduna og slakaði á. Ég þurfti að brjóta þetta og taka eitt símtal út af vinnunni á þessum tíma en þetta var ansi nálægt klukkutíma,“ segir Víðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert