Niðurdæling jarðhitavökva veldur skjálftavirkni

Til stendur að endurskoða verklag niðurdælingar í Svartsengi í samstarfi …
Til stendur að endurskoða verklag niðurdælingar í Svartsengi í samstarfi við HS Orku og hvernig fylgjast má með áhrifum niðurdælingar á skjálftavirkni. mbl.is/Árni Sæberg

Líkan af kvikuinnskotinu sem veldur landrisi á Reykjanesi um þessar mundir sýnir að sprungur hafa opnast í efstu 1-2 km vegna spennu sem hefur myndast í allar áttir yfir rismiðju. Þessi spennubreyting í jarðskorpunni gerir það að verkum að niðurdæling jarðhitavökva sem olli ekki teljandi skjálftavirkni áður er líklegri til að gera það nú. 

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef almannavarna, sem rituð var í kjölfar fjarfund vísindaráðs almannavarna 26. mars síðastliðinn.

Þar segir að 19. mars hafi mælst grunn skjálftahrina í nágrenni við niðurdælingarholu í Svartsengi, einungis 3 km frá útjaðri Grindavíkur. Til stendur að endurskoða verklag niðurdælingar í samstarfi við HS Orku og hvernig fylgjast má með áhrifum niðurdælingar á skjálftavirkni.

Landris hefur mælst á Reykjanesi frá 22. janúar 2020 fram í byrjun febrúar og hóf land svo að rísa á nýjan leik í fyrri hluta mars. Í fyrstu rishrinu var rishraðinn 3-4 mm á dag og reis land um allt að 6 sm. Í rishrinunni sem nú er í gangi rís landið um helmingi hægar (eða minna). Samtals hefur land risið um 7-8 cm frá því í lok janúar. Vísindaráð telur enn þá að líklegasta útskýringin á landrisinu sé kvikuinnskot og er kvikan að „smyrjast“ lárrétt inn á milli jarðlaga og mynda þar þunna sillu á 3-4 km dýpi. Kvikuinnskotið framkallar svo umtalsverða jarðskjálftavirkni á svæðinu norðan við Grindavík.

Fram kom á fundinum að frá upphafi árs hafi rúmlega 6.000 skjálftar á Reykjanesskaganum verið yfirfarnir. Þetta er mesta jarðskjálftavirkni sem mælst hefur á Reykjanesskaga frá upphafi stafrænna mælinga árið 1991. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert