„Getum ekki setið á hliðarlínunni“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við getum í ljósi stöðunnar ekki setið á hliðarlínunni og beðið eftir að einhver komi til okkar,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is. Vonir standa til um að VR og Samtök atvinnulífsins hefji viðræður til að verja lífs­kjara­samn­ing­inn, kaup­mátt og störf vegna versn­andi ástands á vinnu­markaði.

Halldór Benja­mín Þorg­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri SA, sagði í samtali við mbl.is í gær að kostirnir í stöðunni væru tveir. Annar kosturinn væri að fresta launa­hækk­un­um sem koma til greiðslu um mánaðamótin en hinn væri að lækka mót­fram­lag at­vinnu­rek­enda í líf­eyr­is­sjóð tíma­bundið.

Ragnar Þór segir engar formlegur viðræður við SA hafnar en vonir standi til að eitthvað gerist á næstu dögum. Leita þurfi leiða til að verja samninginn en hann segir ekkert sérstakt betra en annað í stöðunni.

„Við þurfum að gera stjórnvöldum og atvinnulífinu grein fyrir þeirri stöðu sem verður uppi í haust þegar tugþúsundir munu fara á strípaðar atvinnuleysisbætur og lenda í gríðarlegu tekjufalli,“ segir Ragnar Þór.

Viðræður SA við Alþýðusamband Íslands um lækkun mótframlags atvinnurekenda í íf­eyr­is­sjóð tíma­bundið runnu út í sandinn og sögðu Ragnar Þór og Vilhjálmur Birgisson sig úr miðstjórn ASÍ í kjölfarið.

Þrátt fyrir það vonast Ragnar Þór til þess að ASÍ komi á endanum með í viðræður við SA. „Það þarf einhver að taka frumkvæði í þessu máli og við getum ekki beðið eftir Alþýðusambandinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert