Blóðsöfnun hefst í næstu viku

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Blóðsöfnun meðal almennings hefst eftir helgina þar sem blóði verður safnað fyrir fyrirhugaðar mælingar á mótefni við COVID-19. Tilgangurinn er að fá góða mynd af því hversu stór hluti þjóðarinnar hafi sýkst á undanförnum vikum.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna sem hófst klukkan tvö í dag.

Hann segir að ekki verði um eiginlega vísindarannsókn að ræða heldur könnun á vegum sóttvarnalæknis sem muni hafa þýðingu við að ákvarða sóttvarnaráðstafanir í samfélaginu á næstu vikum og mánuðum.

Fyrirkomulagið verður þannig að einstaklingar sem eru að fara í blóðprufu til heilbrigðiskerfisins af öðrum ástæðum verða beðnir um að gefa auka blóð í þessu skyni.

Ekki liggur fyrir hvenær niðurstöður úr mótefnamælingunum muni liggja fyrir því ennþá er verið að kanna hvaða aðferð hentar best við þær mælingar. Stefnt er að því að hver og einn verði upplýstur um sínar niðurstöður þegar þær liggja fyrir.

Þórólfur biðlaði til fólks að bregðast vel við beiðnum um auka blóðsýni þar sem að niðurstöður mótefnamælinga verði mjög þýðingarmiklar. Hann tók fram að blóðið yrði ekki notað í öðrum tilgangi en að mæla mótefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert