Icelandair krefst launa- og réttindaskerðingar

Guðlaug segir að erfið staða Icelandair ætti ekki að gera …
Guðlaug segir að erfið staða Icelandair ætti ekki að gera samningsstöðu FFÍ erfiðari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samninganefnd Icelandair krefst þess að laun og réttindi flugfreyja verði skert í nýjum kjarasamningi, að sögn Guðlaugar Lín­eyar Jó­hanns­dótt­ur, formanns Flug­freyju­fé­lags Íslands (FFÍ).

Fundi samninganefnda Icelandair og FFÍ hjá ríkissáttasemjara lauk á fjórða tímanum í dag. Samningur var ekki undirritaður en ríkissáttasemjari sleit fundinum og annar fundur hefur ekki verið boðaður, að sögn Guðlaugar. Í framhaldinu gerir hún ráð fyrir því að staða mála verði kynnt fyrir félagsmönnum FFÍ. 

Félagsmenn reiðir yfir bréfi Boga

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í bréfi sem birtist á innri vef Icelandair í gær að helsta fyrirstaðan fyrir því að flugfélaginu yrði bjargað væri starfsfólk fyrirtækisins. Guðlaug segir að efni bréfsins hafi ekki verið rætt á fundinum. 

„En félagsmenn eru bara reiðir yfir þessu. Við eigum ekki að láta það yfir okkur ganga á íslenskum vinnumarkaði að talað sé svona til starfsfólks.“

Ekki erfiðara að semja vegna veirunnar

Spurð hvort erfiðara sé fyrir flugfreyjur að ná góðum samningum við Icelandair vegna áhrifanna sem kórónuveiran hefur haft á flugsamgöngur segir Guðlaug:

„Nei, ég held ekki. Það ætti ekki að standa í vegi fyrir okkur nema kröfurnar væru svo gríðarlegar að þær væri ekki hægt að samþykkja.“

Aðspurð segir Guðlaug að samninganefnd Icelandair krefjist þess að kjör félagsmanna FFÍ verði skert. 

„Kröfur þeirra fela í sér launaskerðingu og réttindaskerðingu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina