„Erum algjörlega að spila eftir öllum leikreglum“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að flugfélagið hafi farið …
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að flugfélagið hafi farið eftir öllum settum leikreglum á íslenskum vinnumarkaði með því að gera samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands lokatilboð á fundi hjá ríkissáttasemjara í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að flugfélagið hafi farið eftir öllum settum leikreglum á íslenskum vinnumarkaði með því að gera samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) lokatilboð á fundi hjá ríkissáttasemjara í dag. Flugfreyjufélagið hafnaði lokatilboðinu og ekki hefur verið boðað til nýs fundar í deilunni. 

„Við erum algjörlega að spila eftir öllum leikreglum,“ segir Bogi Nils í samtali við mbl.is. ASÍ hefur sent frá sér tilkynningu þar sem segir að lífeyrissjóðum sé ekki stætt í að fjárfesta í fyrirtækjum sem ganga gegn leikreglum á íslenskum vinnumarkaði. Þá sagði Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður FFÍ, í samtali við mbl.is fyrr í dag að hún vonaði að Icelanda­ir stæði við það að fara eft­ir leik­regl­um samfélagsins í kjaraviðræðunum. 

Um eiginlegt lokatilboð að ræða

„Við erum að horfa á að félagið sé samkeppnishæft og geti lifað. Miðað við þetta lokatilboð erum við búin að ganga eins og langt og við getum. Við verðum að geta staðið fyrir framan fjárfesta og sagt að með þessu móti sé félagið samkeppnishæft varðandi launaliðinn, sem skiptir gríðarlega miklu máli í flugrekstri,“ segir Bogi. 

Hann segir að um eiginlegt lokatilboð hafi verið að ræða. „Já, því miður, við getum ekki gengið lengra en við gerðum í dag. Það liggur ljóst fyrir.“ Í tilboðinu fólust launahækkanir á grunnlaun, þar á meðal 12% hækkun á lægstu laun að sögn Boga. Hann segir að með tilboðinu hafi félagið verið að standa vörð um ráðstöfunartekjur starfsfólks en á sama tíma reynt að ná fram auknu vinnuframlagi og færa félagið þannig nær fyrirtækjum sem það á í samkeppni við hvað varðar vinnuframlag og sveigjanleika fyrirtækisins. „Og þá er ég alls ekki að tala um lággjaldaflugfélög,“ bætir hann við. 

Bogi segir að í tilboðinu felist jafnframt aukinn sveigjanleiki en aukið vinnuframlag. „En samt sem áður munum við bjóða upp á, ef þetta tilboð hefði verið samþykkt, bestu starfskjör sem flugfreyjur og flugþjónar vinna eftir í hinum vestræna heimi.“ 

Hluthafafundurinn verður haldinn

Icelanda­ir seg­ist ætla að skoða alla mögu­leika í stöðunni áður en frek­ari skref verði tek­in. Bogi segist ekki getað svarað því á þessu stigi hvaða aðrar leiðir séu í boði fyrir Icelandair en að setjast að samningaborðinu hjá ríkissáttasemjara. „Það eru ekki boðaðir neinir fundir og við erum búin að vera með alla áherslu á að ná samningi við Flugfreyjufélagið en það gekk því miður ekki í dag. Við verðum að skoða hvaða aðrir möguleikar eru til að leysa þetta.“

Bogi segir að hluthafafundur Icelandair fari fram á föstudag, sama hvort samið verði við Flugfreyjufélags Íslands fyrir fundinn eða ekki. „Við erum búin að ganga frá samningum við tvær af þessum mikilvægu flugstéttum hjá okkur, einn samningur er ókláraður og við verðum að fara yfir þá stöðu með hluthöfum okkar á föstudaginn. Fundurinn verður haldinn.“

mbl.is