Vildu taka á sig launaskerðingu

Flugumferðarstjóri að störfum.
Flugumferðarstjóri að störfum. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Flugumferðarstjórar buðust til að taka upp launaliðinn í kjarasamningi sínum við Isavia ANS og biðja um að laun yrðu lækkuð flatt á línuna en því var ekki svarað formlega.

Þetta segir Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Hann segir félagið vera afar ósátt við ákvörðun Isavia ANS um að segja upp öllum starfsmönnum núna um mánaðamótin og bjóða þeim starf að nýju undir skertu starfshlutfalli.

Hann segir stéttina ekki vera að skorast undan ástandinu í samfélaginu og lýsa sig stikkfrí. „Það að þessi leið hafi verið farin eftir þreifingarnar sem voru í gangi er fyrst og fremst bara vonbrigði,“ segir hann.

Um eitt hundrað manns verður sagt upp á einum af fjórum vinnustöðvum ISAVA. Arnar bætir við að félagið sé ósátt við að öllum verði sagt upp og þeir svo ráðnir á mismunandi kjörum. Þannig á það sama ekki að ganga yfir alla.

Flugvél Icelandair á Keflavíkurflugvelli.
Flugvél Icelandair á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Félagið mun ekki klofna 

Félagsfundur hefur verið boðaður annað kvöld þar sem málin verða rædd. Flugumferðarstjórar hafa verið í einu félagi allt frá stofnun og þessir erfiðleikar munu ekki kljúfa það, heldur styrkja og auka samheldnina, að sögn Arnars. „Það hefur verið tónninn á félagsfundum að standa saman sem eitt félag.“

Hátt í 150 manns eru í Félagi íslenskra flugumferðastjóra og starfa þeir á fimm vinnustöðvum þar af fjórum hjá Isavia. Hin vinnustöðin er hjá Samgöngustofu þar sem þrír starfa.

mbl.is