Varð „um og ó“ við fregnir af skimunargjaldi

Andri Már Ingólfsson.
Andri Már Ingólfsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér varð svo um og ó eftir að ég sá þessar fréttir,“ segir Andri Már Ingólfsson, for­stjóri Aventura, um þær fréttir að ferðamenn þurfi að greiða fimmtán þúsund krónur í skimunargjald eftir 1. júlí.

„Þetta er alveg gríðarleg hindrun í því að fá ferðamenn aftur til landsins og er bara í raun mjög vont skref að stíga af stjórnvöldum á þessum tíma. Ég hvet ríkisstjórnina til að endurskoða þetta núna um helgina,“ bætir Andri við.

Andri segir það skipta öllu máli að koma þeim skilaboðum áleiðis að landið sé aðgengilegt og að það sé öruggt að koma hingað. Ef svona hár komuskattur verði lagður á ferðalanga muni fólk leita annað en hann telur að um sé að ræða 15% af heildarverði ferðar til Íslands.

Ferðaskrif­stof­an Aventura hef­ur í sam­starfi við Primotours í Dan­mörku skipu­lagt ferðir til Íslands fyr­ir dönsku ferðaskrif­stof­una og mun fyr­ir­tækið hefja beint flug frá Dan­mörku 28.júní.

Andri segir að búið sé að selja 200 af 2000 sætum sem voru í boði. Hins vegar hafi síminn varla stoppað síðan fréttir af skimunargjaldinu en hann segir ljóst að einhverjir ferðalangar komist ekki yfir þann þröskuld.

„Ég myndi leggja það til að menn myndu hafa þetta gjaldfrítt út ágúst til að fá umferðina inn í landið. Vonandi þarf þá ekki skimun vegna þess að faraldurinn verður genginn yfir en þá verður búið að koma túrismanum í gang aftur.“

Lönd eins og Þýskaland og Ítalía hafa ákveðið að opna landið fyrir ferðamönnum án takmarkana. Andri segist frekar vilja skimun inn í landið og kveðst mjög hrifinn af þeirri ákvörðun. Hins vegar standi gjaldið í honum. 

„Það er ekki hægt að fólkið borgi sjálft fyrir það og alls ekki neina slíka upphæð,“ segir Andri og bendir á að það hafi einfaldlega með eðlilega kauphegðun fólks að gera.

„Fólk mun fara annað. Þetta er of hátt gjald.“

mbl.is