Hræðsla úr lausu lofti gripin

„Þetta verður í fína lagi. Þessi hræðsla við að það …
„Þetta verður í fína lagi. Þessi hræðsla við að það komi annar faraldur inn í landið með þessu, hún er úr lofti gripin. Þó svo að það kæmu eitt eða tvö eða tíu tilfelli þá kunnum við að einangra þau,“ segir Kári og að engin ástæða sé til þess að loka landinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við komum til með að gera allt sem við getum til að styðja við þetta,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, um aðkomu fyrirtækisins að skimun fyrir kórónuveirunni við landamæri Íslands.

Í samtali við mbl.is segir Kári að mikilvægt sé að hafa í huga að um sé að ræða tilraunaverkefni en ekki fyrirkomulag til framtíðar, sem stundum gleymist í umræðunni. Þá sé hræðsla við að kórónuveirufaraldurinn blossi aftur upp í samfélaginu við opnun landamæranna úr lausu lofti gripin.

Gagnaöflun og tilraun fremur en fyrirkomulag til framtíðar

„Af því við höfum gert þetta þá get ég bara sagt án þess að hika að þetta kemur til með að ganga ágætlega,“ segir Kári. „Fyrstu tvær vikurnar sem við verðum að skima verðum við eiginlega bara að afla gagna sem við notum til að segja okkur hvort við eigum að halda áfram. Ef við skimum 2.000 á dag í 14 daga, það eru 28.000 sýni, og það er ekkert virkt smit, þá náttúrulega held ég að við hættum að skima,“ segir Kári.

„Ef farþegarnir hafa allir komið frá Noregi, Danmörku og Þýskalandi þessar fyrstu tvær vikur þá myndum við hætta að skima frá þeim, en ef farþegar færu síðan að koma frá Bandaríkjunum og Bretlandi myndum við skima aftur frá þeim, að minnsta kosti nokkrar flugvélar. Þannig að í stað þess að líta á þetta sem einhvers konar fyrirkomulag sem verður til framtíðar þá erum við að afla gagna til þess að ákvarða hvort þess þurfi.“

„Þetta verður í fína lagi. Þessi hræðsla við að það komi annar faraldur inn í landið með þessu, hún er úr lofti gripin. Þó svo að það kæmu eitt eða tvö eða tíu tilfelli þá kunnum við að einangra þau,“ segir Kári og að engin ástæða sé til þess að loka landinu. 

„Svo er annað í þessu, að þeir sem reynast jákvæðir í skimun úti á flugvelli, við komum til með að gera mótefnamælingu í þeim öllum. Ef einhver reynist jákvæður að vera með veiruna, en er með mótefni gegn henni, þá er engin hætta á því að hann sé smitandi, eða mjög lítil hætta.“

Starfsfólk fyrirtækisins vann myrkranna á milli þegar faraldurinn stóð hæst …
Starfsfólk fyrirtækisins vann myrkranna á milli þegar faraldurinn stóð hæst hér á landi, um helgar og á helgidögum, án þess að fá sérstaklega fyrir það greitt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mótefnamælingar, sem Íslensk erfðagreining hefur framkvæmt samhliða skimun undanfarnar vikur, benda til þess að þrefalt fleiri hafi smitast af kórónuveirunni en staðfest hefur verið. Kári segir það sóttvarnalæknis að tilkynna þeim sem mælst hafi með mótefni fyrir kórónuveirunni og að það verði eflaust gert fljótlega, þó ekkert sérstaklega liggi á. Hins vegar hafi einungis verið um að ræða fyrsta kafla mótefnamælinga.

„Ef ónæmiskerfið okkar bregst við þessari veiru á svipaðan hátt og frænka hennar, sem olli SARS árið 2003, þá koma mótefnin til með að hækka í 120 daga eftir sýkingu, í fjóra mánuði, en svo byrjar það að minnka eftir það. Við komum til með að gera aðra mótefnaskimun þegar kemur fram á haust til þess að finna út hvernig þetta gengur fyrir sig með þessa,“ útskýrir Kári.

Gripu inn í þegar þörf krafði

Aðkoma Íslenskrar erfðagreiningar að skimun við landamæri Íslands, sem hefst 15. júní, felst m.a. í lánum á tækjum og búnaði, starfsfólki, húsnæði, aðstoð við uppsetningu skimunarstöðva og þjálfun. Kostnaður Íslenskrar erfðagreiningar vegna skimunar á kórónuveirunni hefur hlaupið á milljörðum króna, en Kári reiknar með því að sá kostnaður sem hlýst vegna skimunar við landamæri verði greiddur af ríkinu.

„Við gripum inn í þegar þörf krafði. Við lokuðum allri annarri starfsemi fyrirtækisins í þrjá mánuði til þess að geta sinnt þessu og það var mjög myndarlegt framlag af okkar hálfu til baráttunnar gegn þessari veiru. Nú erum við komin á annan stað og við getum orðað það þannig að þetta er val ríkisins að ráðast í þetta, og meira að segja ætlar sér að innheimta gjald fyrir það, sem mér finnst alveg sjálfsagt.

Það er engin ástæða á þessu augnabliki fyrir okkur til að standa straum af kostnaði þessa, en í byrjun á þessu öllu saman þá held ég nú að við séum ekki að fara að rukka mjög hart fyrir aðkomu fólks og svo framvegis. Við erum bara hluti af þessu samfélagi sem er að standa í þessu stappi.“

Fær ánægju fyrir umframvinnu

Eins og áður segir umbylti Íslensk erfðagreining starfsemi sinni til þess að aðstoða í baráttunni gegn kórónuveirufaraldrinum á Íslandi. Starfsfólk fyrirtækisins vann myrkranna á milli þegar faraldurinn stóð hæst hér á landi, um helgar og á helgidögum, án þess að fá sérstaklega fyrir það greitt. Þetta staðfestir Kári í samtali við mbl.is.

„Ég sagði starfsfólki í upphafi að ég ætlaðist til þess að það ynni án þess að rukka fyrir aukavinnuna, vegna þess að hér stæðum við saman í baráttunni í samfélaginu, og það sem við fengjum fyrir umframvinnuna væri ánægjan af því að hafa tekið þátt. Það hefur verið aðalprinsippið hjá okkur. Ég er á því að fólk eigi að hafa sín laun og að þau eigi að vera þokkalega góð og að það eigi að leggja sitt af mörkum eins og þörf krefur við verkefni dagsins.“

Aðspurður hvort einhverrar óánægju gætti meðal starfsfólks vegna þessarar stefnu segist Kári af og til finna fyrir óánægju starfsfólks. „Hér í Vatnsmýrinni höfum við nú ekki fundið fyrir slíku. Menn hafa alltaf mismunandi skoðanir á því hvað sé rétt og hvað sé rangt þegar kemur að launum. Almennt séð þá er þetta ekki komið upp sem stórt mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert