Óheiðarlegir, segir Þórólfur

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í dag.
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir málið sem kom upp á Suðurlandi í tengslum við þjófa sem smituðu hugsanlega hóp lögreglumanna vera óheppilegt.

Aðspurður segist hann þó ekki hafa of miklar áhyggjur varðandi útbreiðslu kórónuveirunnar í tengslum við málið. „Þetta er partur af því sem við erum búin að vera að fást við en höfum ekki þurft að eiga við í nokkurn tíma,“ segir Þórólfur.

„Það er óheppilegt að þetta skuli gerast. Að menn skuli vera svona óheiðarlegir eins og þarna virðist vera.“

Verið er að bíða eftir frekari niðurstöðum til að geta lagt mat á það hvort einstaklingarnir séu smitandi eða ekki og ræðst framhaldið af því. Fram kom í máli Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi, að þjófarnir séu í einangrun í fangaklefa að beiðni sóttvarnarlæknis.

„Þetta er eitthvað sem maður er ekkert að reikna með,“ segir hann um það að einstaklingarnir hafi brotið reglur um sóttkví við komuna til landsins.

Ef svo reynist að þeir séu smitandi þurfa þeir að fara í einangrun í tvær vikur og gera þarf smitrakningu, eins og venjan er. Þá þurfa lögreglumennirnir einnig að vera áfram í sóttkví í tvær vikur.  

Uppfært kl. 18.43:

Tveir af einstaklingunum þremur sem voru handteknir grunaðir um þjófnað eru smitandi og því þarf að setja þá í einangrun. Sjá þriðji þarf að fara í sóttkví.

Þórólfur hefur farið fram á gæsluvarðhald yfir einstaklingunum, sem eru frá Rúmeníu, á grundvelli sóttvarnarlaga. Hann segist ekki vita frá hvaða landi þeir komu til Íslands.

Að sögn Þórólfs virðast mennirnir ekki hafa farið eftir leiðbeiningum um sóttkví og því þurfi að hafa eftirlit með þeim. Vegna þess að einstaklingarnir tveir eru smitandi þurfa lögreglumennirnir fjórtán að vera áfram í sóttkví næstu tvær vikurnar.

„Algjört þrekvirki“

Spurður út í æfinguna sem fór fram í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna sýnatöku ferðamanna á mánudaginn, segir hann að vel hafi gengið. „Mér finnst þetta líta mjög vel út. Menn eru búnir að leggja inn gríðarlega mikla vinnu af hendi, það er greinilegt. Það er algjört þrekvirki að hafa náð þessu öllu saman.

Hann vonar að allt muni ganga eins og í sögu á flugvellinum á mánudaginn. „Við eigum von á í kringum 600 farþegum á mánudeginum öllum. Það verður fróðlegt að að sjá hvernig það gengur fyrir sig.“

Frá æfingunni í dag.
Frá æfingunni í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert