Fjarlægð við fundarborðið

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, þegar …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, þegar þær kynntu samkomubann á Íslandi 13. mars 2020. Nú er Lilja heima í sóttkví. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórn landsins er aftur tekin að funda með aukinni fjarlægð á milli fundarmanna í ljósi hrinu kórónuveirusmita í samfélaginu. Það var gert á meðan faraldurinn reis hæst og er nú aftur horfið til fyrri ráðstafana.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, verður í sóttkví heima hjá sér næstu tvær vikur eftir að eiginmaður hennar greindist með veiruna.

„Það sýnir að það er áfram mjög mikilvægt að gæta varúðar,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is, en sjálf fór hún í svonefnda úrvinnslusóttkví á meðan hún beið niðurstöðu úr sýnatöku eftir að eiginmaður hennar og barn fóru í sóttkví í upphafi faraldursins.

Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu, þar sem ríkisstjórnarfundir eru haldnir.
Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu, þar sem ríkisstjórnarfundir eru haldnir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Annars hefur Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra einn ráðherra farið í sóttkví vegna kórónuveirunnar. Samkvæmt upplýsingum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu vinnur Lilja að heiman í fjarvinnu. Starfsfólki í ráðuneytinu hefur ekki verið fyrirskipað að fara í sóttkví og er starf þar með hefðbundnum hætti.

Minnir okkur á hvað þetta er bráðsmitandi

Katrín segir að náið sé fylgst með framgangi veirunnar á landinu þessa stundina. Útbreiðsla veirunnar hefur verið nokkur eftir að hún tók sig upp á meðal Íslendinga, fyrst innan knattspyrnuhreyfingarinnar og breiddist svo út í samfélagið. Enn er ekki ljóst hve víðtæk sú útbreiðsla er, en virk smit í samfélaginu eru að minnsta kosti 12 þessa stundina.

„Við erum að fylgjast mjög vel með þessu. Við vissum alveg að eitthvað myndi koma upp og það lá fyrir, en þetta minnir okkur samt á hvað þetta er bráðsmitandi,“ segir forsætisráðherra. „Við erum öll búin að slaka á vegna góðs árangurs en þetta þýðir að það má ekkert slaka á þessum einstaklingsbundnu sóttvörnum. Það er eðlilegt, því þetta er íþyngjandi en þó ekki sé nema að fólk gæti varúðar í nánum samskiptum við aðra, gæti að fjarlægð, þvoi sér um hendurnar og allt þetta. Það skiptir máli.“

Maður er ekki að faðma ferðamenn á hverjum degi

Vegna þessarar þróunar hefur Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir boðað að gildandi reglur um samkomutakmarkanir, svo sem um 500 manna hámark á samkomum og takmarkaðan afgreiðslutíma skemmtistaða, kunni að verða framlengdar þremur vikum lengur en til stóð að aflétta þeim. Enn er eftir að koma í ljós hvernig þessi seinkun verður útfærð.

Þá hefur Þórólfur einnig velt því upp hvort senda eigi Íslendinga í sóttkví við komuna til landsins, eins og Katrín bendir á: „Þeirra tengslanet er auðvitað öðruvísi. Maður er ekki að faðma ferðamenn á hverjum degi og þeir eru ekki í partíunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert