Skólaverkefni komið út í alþjóðlega keppni

Axel Bjarkar, Hálfdán Helgi og Sölvi Bjartur við verðlaunaafhendinguna í …
Axel Bjarkar, Hálfdán Helgi og Sölvi Bjartur við verðlaunaafhendinguna í vor þegar þeir unnu innlendu keppnina. Ljósmynd/Landvernd

Heimildarmynd þriggja framhaldsskólanema í Tækniskólanum er komin í úrslit í alþjóðlegri keppni ungra umhverfisfréttamanna. Strákarnir sem að myndinni standa segja að þeir hafi alls ekki búist við því að komast svo langt með verkefnið en í heimildarmyndinni fjalla þeir um kolefnisspor samfélagsmiðla.

„Það er ótrúlega skemmtilegt. Við erum allir mjög stoltir að hafa lagt það á okkur að gera þetta verkefni upprunalega. Við erum mjög ánægðir að hafa náð svona langt með eitthvað sem átti upphaflega bara að vera skólaverkefni. Það var alls ekki planið með þessu,“ segir Hálfdán Helgi Matthíasson sem skapaði myndina ásamt Axel Bjarkari Sigurjónssyni og Sölva Bjarti Ingólfssyni. 

Fullt af hugmyndum

Þeir sigruðu í keppninni Ungt umhverfisfréttafólk sem Landvernd stóð fyrir í vor. Heimildarmyndin ber heitið Mengun með miðlum en þeir þurftu að stytta hana úr 12 mínútum í þrjár og þýða hana á ensku fyrir alþjóðlegu keppnina. Þar heitir hún Is there a solution to internet pollution? 

Strákarnir lögðu mikið í myndina og eyddu töluverðum tíma í að afla sér upplýsinga, skrifa handrit og klippa myndina til. Myndin er nú í fimm heimildarmynda úrslitum og eiga strákarnir þess kost að fá dreifingu á henni á stórum erlendum fréttasíðum, ef þeir vinna keppnina. 

Hálfdán segir að þeir þrír eigi fullt af hugmyndum og sjái alveg fyrir sér að skapa fleiri heimildarmyndir. Þeir eru mjög áhugasamir um umhverfismál og segir Hálfdán sérstaklega gaman hversu áhugasamt ungt fólk er um umhverfismál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert