Búinn með 18.000 klessur og enn að

Frá júlílokum hefur hinn sjötugi Guðjón Óskarsson hreinsað upp 18.000 tyggjóklessur af götum borgarinnar og við fyrirtæki sem hafa fengið hann til liðs við sig. Reykjavíkurborg hefur tryggt að Guðjón haldi sínu striki næstu tvo mánuðina.

Undir merkinu: Tyggjóið burt!, hefur Guðjón náð að vekja mikla athygli á þessum hvimleiða sið fólks sem er að henda tyggjóklessum á jörðina þar sem það er statt. Von hans er að fólk taki þetta til sín og hugsi sig tvisvar um áður en tyggjóið er látið flakka á gangstéttarnar. „Það er bara gríðarlega mikið um nikótíntyggjó sem er erfitt. Það er miklu erfiðara að taka nikótíntyggjó,“ útskýrir Guðjón. Hann festi kaup á sérstöku tæki til hreinsunarstarfana en það hitar vatn og sápu upp í 102 gráðu hita til að losa klessurnar.

Hægt er að finna frekari upplýsingar um verkefnið á tyggjoidburt.is

Guðjón er afar ánægður með að borgin hafi ákveðið að taka þátt í verkefninu. „Borgin hefur semsagt óskað eftir því að ég haldi þessu áfram bara sem verkataki hjá borginni allavega í tvo mánuði,“ segir Guðjón svo verði framhaldi skoðað í vor. Upphaf átaksins má rekja til þess að Guðjón missti vinnuna í ferðaiðnaðinum fyrr á árinu og leist illa á að sitja aðgerðalaus.

mbl.is hitti Guðjón í Vonarstræti í dag þar sem hann var að fagna samkomulaginu við borgina og hreinsa upp klessur.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman