Ekkert vilyrði um að hverfa frá atkvæðagreiðslu

Katrín Jakobsdóttir segir stöðu efnahagsmála þunga og að aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru skömmu fyrir hádegi í dag beri þá von í brjósti að þær muni auka umsvif hagkerfisins og tryggi frið á vinnumarkaði. 

Hún segir að aðgerðirnar séu bæði teknar með hliðsjón af bágri stöðu ferðaþjónustunnar en einnig séu þetta almennar aðgerðir sem muni nýtast á vinnumarkaði í heild. 

Bjartsýn á að þetta muni halda frið á vinnumarkaði 

Spurð hvort að aðgerðirnar beinist helst að ferðaþjónustunni þá segir hún að bæði séu aðgerðirnar almennar fyrir vinnumarkaðinn í heild en einnig sé sérstaklega komið til móts við aðila í ferðaþjónustunni og sviðslistamenn svo dæmi sé nefnt. 

Tillögurnar hafa verið kynntar fyrir Samtökum atvinnulífsins og ASÍ. Spurð hvort að hún telji að þetta dugi til þess að SA muni hverfa frá fyrirhugaðri atkvæðagreiðslu um uppsögn lífskjarasamninga þá vonast hún til þess. „Ég er auðvitað bjartsýn á því að þetta hjálpi okkur í því sameiginlega markmiði að halda frið á vinnumarkaði, en samtökin taka að sjálfsögðu sína ákvörðun,“ segir Katrín. 

Þá segir hún markmiðið að auka umsvif hagkerfisins. „Það skiptir máli að horfa á þetta heildstætt og að auka umsvifin þannig að hægt sé að fjölga störfum og að atvinnuleysi verði ekki varanlegur vandi í okkar góða samfélagi.“

Þá segir hún að farið verði yfir stöðuna með Samtökum atvinnulífsins og ASÍ í framhaldinu. 

Þröngur stakkur sniðinn að lækka tryggingagjald 

Bjarni segir vandmeðfarið að meta óvissu á kostnaði ríkissjóðs sem metinn er á 25 milljarða króna. „Það fer að hluta til eftir þátttöku vegna ívilnana í fjárfestingu. Við erum að bregðast við þeirri stöðu að fjárfestingar í atvinnulífinu hafa hrunið og við þurfum að fá þær aftur,“ segir Bjarni. 

Hann segir að ekki sé vilyrði fyrir því að SA muni hverfa frá fyrirhugaðri atkvæðagreiðslu um uppsögn lífskjarasamningsins. Hins vegar sé viðbragð ríkisstjórnarinnar þess eðlis að hann hafi væntingar til þess að þetta muni hafa áhrif. 

Spurður hvort að komið hafi til álita að lækka tryggingagjaldið meira en um 0,25% þá segir hann ríkinu þröngur stakkur sniðinn í þeim efnum. „ Vegna þess að réttindin sem að tryggingagjaldið á að fjármagna þau eru að taka meira til sín. Við höfum t.d. hækkað greiðslur í fæðingarorlofi þannig að við erum að greiða 19 milljarða út í fæðingarorlof á næsta ári en vorum 10,5 milljarðar þegar ríkisstjórnin tók við. Svo segja menn að gjaldið þurfi að lækka,“ segir Bjarni. 

Þá segir Bjarni að sama gildi um atvinnuleysissjóð tryggingagjaldið fari að hluta í að fjármagna hann. 

mbl.is