Ísland bjóði einungis ríkum ferðamönnum

Ferðamönnum hefur fækkað hratt hérlendis sem og erlendis vegna kórónuveirufaraldursins.
Ferðamönnum hefur fækkað hratt hérlendis sem og erlendis vegna kórónuveirufaraldursins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bandaríski fréttamiðillinn Bloomberg segir Ísland nú leitast við að endurræsa ferðamannaiðnaðinn en einungis fyrir ríka ferðamenn. Miðillinn vekur athygli á því að í lok október hafi ríkisstjórnin gert breytingar á vegabréfsáritunum fyrir þá sem vilja stunda hér vel launaða fjarvinnu en búa utan Schengen svæðisins. 

Þannig geta Ameríkanar og aðrir erlendir ríkisborgarar sótt um að fá að dvelja hér í sex mánuði séu þeir í fjarvinnu sem borgar vel. Einungis þeir sem eru í starfi utan landssteinanna og eru með milljón íslenskra króna í mánaðarlaun uppfylla skilyrðin fyrir þessari löngu dvöl. 

Þrátt fyrir að þeir sem dvelji lengi hér á landi séu í raun og veru ekki skilgreindir sem ferðamenn þá fullyrðir Bloomberg að vonir standi til þess að þeir ríku einstaklingar sem með þessu eigi að fá til landsins leigi ónotaðar íbúðir, fylli tóm borð veitingastaða og fari út á landsbyggðina um helgar.

Ekki ferðamenn heldur sérfræðingar

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið áréttar þó við mbl.is að með breytingunni sé ekki verið að tala um ferðamenn, heldur erlenda sérfræðinga sem myndu setjast hér að tímabundið. Hugmyndin er að með breytingunni sé að unnið sé að betra og sterkara nýsköpunarumhverfi. Hugmyndin er fyrst og fremst að búa til sterkari umgjörð nýsköpunarmála, byggja upp útflutningsgreinar byggðar á hugviti o.s.frv. 

Um það hefur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra t.a.m. sagt: 

„Einn helsti veikleiki íslenska nýsköpunarumhverfisins eru tengingar okkar við útlönd. Með því að hvetja fjarvinnufólk til að koma til Íslands erum við að minnka heiminn og búa til mikilvægar tengingar sem annars væri erfitt að koma á.“ 

Aðferð Íslands einstök

Ísland er þó ekki fyrsta landið sem gerir tilraun til að fá ferðamenn til landsins með því að auðvelda fólki að dvelja lengi í landinu. Bermuda, Barbados, Cayman-eyjar og Eistland hafa öll einnig notað þessa aðferð til að heilla erlenda ferðamenn að ríkjum sínum. 

Aðferð Íslands er þó einstök vegna þess að hún miðar eingöngu að því að fá ríkt fólk til landsins. Bermuda krefst t.d. ekki nema því sem nemur um 35.000 íslenskum krónum í umsóknargjald. Hér á landi er aftur á móti gerð krafa um milljón í mánaðarlaun. Þá þurfa umsækjendur að uppfylla ákveðnar heilbrigðiskröfur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert