„Allir farnir þegar við heilbrigðisstarfsfólkið fórum“

Seyðisfjörður eftir aurskriður.
Seyðisfjörður eftir aurskriður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég stoppaði við Kjörbúðina áður en ég fór á Fjarðarheiði og þurfti aðeins að melta þetta áður en ég fór, líta á bæinn minn. Þögnin sem samt var ærandi, blá blikkljósin, kastarar lýsa á fjallið, það var hætt að rigna, um stund,“ Þetta kemur fram í lýsingu Sigurveigar Gísladóttur hjúkrunarfræðings á hjúkrunarheimilinu Fossahlíð, á upplifun hennar af aurskriðunum sem féllu á Seyðisfjörð 18. desember síðastliðinn og afleiðingum þeirra. 

„Ég hef starfað sem hjúkrunarfræðingur í 20 ár og lengst af á hjúkrunarheimilinu Fossahlíð en enn lengra síðan ég tók fyrstu vaktirnar á gamla sjúkrahúsinu, sem óbreytt gangastúlka, einmitt 30 ár síðan ég var í fyrsta sinn að vinna á jólum. Ég hef lent í mörgum atvikum sem mótuðu mig sem fagmann og fræðimann í mínu fagi, alveg frá fyrstu tíð. Kannski er hægt að segja að hvert skref er undirbúningur þess sem síðar kemur en aldrei óraði mig fyrir að upplifa vinnudag eins og 18.12.2020 eða þá lífs- og faglegu reynslu sem dagarnir síðan hafa fært mér, segir Sigurveig í upphafi lýsingarinnar sem hún birti á Facebook. 

„Ég var að gefa síðdegiskaffi í Fossahlíð þegar drunurnar dundu yfir og ég vissi hvað var að gerast en hljóp samt á milli glugga og út á svalir til að leita af heflunum sem væru að rista upp malbikið. Hugurinn fer í ótal hringi og svo fer rafmagnið. Sjúkrabíll og læknir rjúka af stað. Við fengum staðfestingu um að skriða hefði fallið, mörg hús hrifin með, verið að leita hvort fólk sé heilt á húfi,“ skrifar Sigurveig. 

„Ég kvaddi eiginmanninn um morguninn, hann í björgunarsveitagalla og ég reyni að fara ekki að spinna hugann um það. Hringi í systur mína sem er að passa soninn, allt í lagi þar. Við starfsfólkið reynum að finna brúkleg vasaljós í myrkrinu og halda ró meðal 17 íbúa okkar,“ skrifar Sigurveig, en starfsmenn á vakt þennan örlagaríka dag voru sex. 

Staðan var umhugsunarverð en streituvaldandi 

„Fljótlega fara að berast SMS, allir eiga að mæta í fjöldahjálparstöð, ég næ í eiginmanninn, hann er ok en sem betur fer veit ég ekki fyrr en síðar að hann sat í björgunarsveitabíl sem barst með skriðunni langa leið. Stuttu síðar fara að koma meldingar um að það eigi að flytja alla úr bænum. Þá hringi ég í 112 og tilkynni okkur inn, 17 íbúar og 6 starfsmenn á þeim tímapunkti. Tveir lögreglumenn koma til okkar. Við spyrjum um slys á fólki og fáum fréttir að líklega sé það ekki. Spyr hvort sé rétt að fólk eigi að fara úr bænum, já lítur út fyrir það, en við? Lögreglan leitar eftir upplýsingum, nei. Ekki að svo stöddu alla vega. Ég varð ringluð.“

Sigurveig lýsir andrúmsloftinu á Fossahlíð. Rýming bæjarins var hafin, en ekki lá fyrir hvort að rýma ætti Fossahlíð enn. „Á sama tíma er starfsfólkið svo lagið við að halda ró, slökkva á fréttum, spila skemmtiþætti eða tónlist. Staðan er umhugsunarverð og streituvaldandi fyrir okkur, eigum við 9 starfsmenn að vera hér eftir í bænum og hugsa um íbúana, án annarra?“ spyr Sigurveig. „Ég verð eilíflega þakklát að það var okkar fólk, stjórn HSA (Heilbrigðisstofnun Austurlands) sem tók af skarið áður en nokkur annar tók afstöðu. Við förum.“

Íbúar Fossahlíðar voru síðan fluttir á hjúkrunarheimili Heilbrigðisstofnunar Austurlands á Egilsstöðum og á sjúkradeild Umdæmissjúkrahúss Heilbrigðisstofnunar Austurlands í Neskaupsstað. 

Allir farnir þegar heilbrigðisstarfsfólk fór 

„Þeir sögðu í fréttum að það hefði tekið klukkutíma að rýma bæinn, það er ekki rétt, nema þá ef við vorum ekki talin með,“ skrifar Sigurveig. „Við stóðum eftir á ganginum, slökktum ljósin, kvöddumst, fórum heim (við sem gátum) hentum í tösku. Um bæinn blikkuðu blá ljós og ég vissi að ef lögreglan stoppaði mig þyrfti ég að gefa skýringu á ferðum mínum.

„Ég stoppaði við Kjörbúðina áður en ég fór á Fjarðarheiði og þurfti aðeins að melta þetta áður en ég fór, líta á bæinn minn. Þögnin sem samt var ærandi, blá blikkljósin, kastarar lýsa á fjallið, það var hætt að rigna, um stund, svo fór rafmagnið aftur og ég prísaði mig sæla að það hafi hangið inni á meðan við þurftum að nota lyftuna í flutningum. Það var engin halarófa af bílum þegar ég fór, það var enginn, allir farnir þegar við heilbrigðisstarfsfólkið fórum. Eiginmaður minn var ekki að fara með mér, því sumir fóru auðvitað aldrei burt þessa daga vegna sinna starfa,“ skrifar Sigurveig. 

„Ég keyrði af stað þegar klukkan var að nálgast 21, þessi langa morgunvakt á enda. Ég var uppfull af samviskubiti, sektarkennd. Mér fannst ég hafa brugðist íbúum Fossahlíðar á sama tíma og ég vissi að það var ekki réttmæt tilfinning, en tilfinningar stjórnast ekki af röksemd. Þessi tilfinning hvarf ekki fyrr en ég hitti hluta af fólkinu mínu aftur á Dyngju á sunnudeginum. Það var gott.“

Frásagnir okkar Seyðfirðinga eru margar og mismunandi eftir 18.12.20. Síðustu 17 daga höfum við, starfsfólk og íbúar...

Posted by Sigurveig Gísladóttir on Mánudagur, 4. janúar 2021mbl.is