GPS-mælum komið fyrir við Fagradalsfjall

Frá Reykjanesi.
Frá Reykjanesi. mbl.is/Kristinn Magnússon

GPS-mælar verðir settir upp í námunda við Fagradalsfjall til að geta betur mælt breytingar á yfirborði landsins og vaktað þar með hugsanlega kvikusöfnun. Þetta var ákveðið á fundi almannavarna, vísindamanna og annarra viðbragðsaðila í hádeginu.

Flestir skjálftar sem orðið hafa á Reykjanesi síðustu daga hafa átt upptök sín við Fagradalsfjall, þótt nokkrir hafi einnig verið við Núpsstaðaháls í nótt. Skjálftasvæðið hefur þar með einangrast síðustu daga, en fyrir ekki svo löngu voru skjálftaupptök á víð og dreif um Reykjanesið.

Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir í samtali við mbl.is að vel geti hugsast að skjálftarnir fari að dreifa úr sér á ný. Meðan virknin er mest á einu svæði sé þó athyglinni beint þangað.

Reglulegar gasmælingar hafa verið gerðar á svæðinu til að greina hvort kvikusöfnun sé í gangi undir yfirborðinu, en það er fyrirboði eldgoss. Engin kvikusöfnun hefur þó mælst eða önnur merki um eldgos fundist. Síðasta gasmæling Veðurstofunnar var gerð á fimmtudag en óvíst hvenær það verður gert næst. Því til viðbótar framkvæmir HS Orka sams konar mælingar.

Frá gasmælingum á Reykjanesi í vikunni.
Frá gasmælingum á Reykjanesi í vikunni. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina