Segja stjórnvöld draga lappirnar

Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SFV.
Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SFV. mbl.is/Hari

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, SFV, sendu frá sér tvær aðalfundarályktanir í dag þar sem áhyggjum yfir stöðu aðildarfélaga samtakanna er lýst.

Stjórnvöld eru þannig gagnrýnd fyrir að svara ekki erindum aðildarfélaganna um hvernig ríkið hyggist koma til móts við þau vegna breytinga á vinnutíma vaktavinnufólks, sem taka á gildi 1. maí. 

Í ályktuninni segir að fjárhagur aðildarfélaga SFV sé mjög viðkvæmur eftir niðurskurð undanfarinna ára og því geti þau ekki staðið straum af kostnaði við þær breytingar sem taka gildi um mánaðamótin, ef ekkert verður að gert. Skorað er á stjórnvöld að bregðast strax við ástandinu. 

Í seinni aðalfundarályktun SFV frá í dag segir svo að skýrsla starfshóps heilbrigðisráðuneytis um greiningu rekstrar hjúkrunarheimila, sem skipaður var í ágúst í fyrra, hafi verið tilbúin fyrir fjórum vikum. Útgáfa skýrslunnar hafi hins vegar seinkað vegna óánægju fulltrúa ráðuneytisins í starfshópnum með lokaútgáfuna. SFV skorar á heilbrigðisráðuneytið að birta skýrsludrögin tafarlaust eins og þau standa nú. 

mbl.is