60 í eftirliti á Covid-19-göngudeild

Ragnar Freyr Ingvarsson.
Ragnar Freyr Ingvarsson.

Rétt rúmlega 60 manns eru innritaðir í eftirliti á Covid-19-göngudeild Landspítalans og er ástandið á þeim nokkuð stöðugt, að sögn Ragnars Freys Ingvarssonar, umsjónarlæknis göngudeildarinnar.

Hann kveðst ekki vita hvort búið er að bóka fólk í skoðun í dag. Aðspurður segir hann starfsfólkið vel undirbúið fyrir fjölgun smita. „Við erum búin að gera þetta áður. Við erum með innviðina tilbúna til að glíma við það sem gæti gerst, að fjórða bylgjan sé komin í gang, og erum reiðubúin til að takast á við það eins og í hin skiptin,“ segir Ragnar Freyr.

Hann segist vissulega hafa áhyggjur af stöðu mála og vera uggandi yfir ástandinu. Það breyti því ekki að göngudeildin sé tilbúin til að takast á við aukið álag.

Einn unglæknir starfar á deildinni og á hverjum tíma er sérfræðilæknir á bak við þann póst. Hjúkrunarfræðingar starfa einnig á deildinni ásamt fólki í símaveri. „Við bara stækkum og minnkum eftir þörfum,“ segir Ragnar Freyr, spurður út í fjölda þeirra sem starfa á deildinni.

mbl.is