Bryndís sækist eftir 2. sæti

Bryndís Haraldsdóttir sækist eftir 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í …
Bryndís Haraldsdóttir sækist eftir 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Ljósmynd/Aðsend

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks gefur kost á sér í 2. sætið í Suðvesturkjördæmi.

Bryndís er í dag 2. þingmaður kjördæmisins og skipaði 2. sæti listans fyrir þingkosningarnar 2016 og 2017. Bryndís er einn af varaforsetum Alþingis, situr í efnahags- og viðskiptanefnd og utanríkismálanefnd.

Ásamt fastanefndum situr Bryndís í Íslandsdeild ÖSE og Vestnorrænaráðinu. Þá leiddi hún þverpólitíska nefnd sem endurskoðaði Norðurslóðastefnu Íslands, en stefnan er nú í meðförum þingsins. Bryndís hefur jafnframt setið í framtíðarnefnd forsætisráðherra og sat í starfshóp um mælikvarða fyrir hagsæld og lífsgæði er kemur fram í tilkynningu. 

Meðal þingmála sem Bryndís hefur lagt fram eru; lagning Sundabrautar í einkaframkvæmd, frumvarp um að iðn- verk og starfsnám verði gert jafnhátt undir höfði og bóknám í löggjöf um inntökuskilyrði í háskóla og frumvarp um að gera dreifingu jarðneskra leifa (ösku) frjálsa.

Þá hefur Bryndís hefur lagt fram skýrslubeiðnir og þingsályktun um dánaraðstoð.

Bryndís sat í bæjarstjórn Mosfellsbæjar 2010-2018 hún var þar formaður bæjarráðs og skipulagsnefndar. Bryndís var stjórnarformaður Strætó bs. og sat í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins.

Bryndís er viðskiptafræðingur að mennt og jafnframt menntuð í stjórnsýslufræðum. Hún er gift Örnólfi Örnólfssyni rafvirkjameistara og eiga þau þrjú börn.

Bryndís hefur verið í eigin atvinnurekstri og starfaði lengi að nýsköpunar- og frumkvöðlamálum hjá Nýsköpunarmiðstöð. Þá hefur Bryndís sinn fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá árinu 2002.


mbl.is