Jón Pétur Zimsen nýr skólastjóri Melaskóla

Jón Pétur Zimsen.
Jón Pétur Zimsen. Ljósmynd/Aðsend

Jón Pétur Zimsen er nýr skólastjóri Melaskóla. Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar. 

Jón Pétur lauk B-Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1999 og M.Ed-nám í stjórnun menntastofnana við Háskóla Íslands. Hann kenndi við Réttarholtsskóla frá árinu 1998 auk þess að vera aðstoðarskólastjóri og skólastjóri. Jón Pétur var aðstoðarmaður menntamálaráðherra í eitt ár, m.a. til að sinna endurskoðun aðalnámskrár og vinna við nýja menntastefnu. Eftir ár í ráðuneytinu snéri hann aftur í Réttarholtsskóla, að því er fram kemur í tilkynningu. 

Hann hefur tekið virkan þátt í félagsstarfi og réttindabaráttu kennara og skólastjórnenda, s.s. með samninganefnd FG og í stjórn Kennarafélags Reykjavíkur. Hann hefur kennt á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, komið að endurskoðun námsskrár í náttúrufræði og unnið að æskulýðs- og íþróttamálum. Helstu áhugamál Jóns Péturs eru skólamál, samskipti fólks, fréttir, veiði og útivist.

Jón Pétur mun stjórna ásamt tveimur aðstoðaskólastjórum, þeim Helgu Jónu Pálmadóttur, sem hefur starfaði í Melaskóla um árabil og Hörpu Reynisdóttur, sem verður staðgengill skólastjóra. Harpa vann með Jóni Pétri í Réttarholtsskóla en hefur undanfarin áratug starfað við kennslu og skólastjórnun í Svíþjóð, í Helsingborg og í Knivsta.

Í Melaskóla eru um 580 nemendur og 85 starfsmenn. Jón Pétur er mættur til starfa í Melaskóla auk þess að klára skólaárið í Réttarholtsskóla, segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert