Lengi vitað af tengslum Michele við Washington

Gunnar Steinn Pálsson almannatengill og Michele Roosevelt Edwards.
Gunnar Steinn Pálsson almannatengill og Michele Roosevelt Edwards. Samsett mynd

Gunnar Steinn Pálsson, sem hefur sinnt stöðu almannatengils Michele Roosevelt Edwards á Íslandi, segir fréttir dagsins af Michele ekki koma honum á óvart, hann hafi lengi vitað að Michele var tengd hátt settum mönnum í Washington. Þetta kemur fram í samtali hans við mbl.is.

Washington Post greindi frá því í gær að Michele Roosevelt Edwards, sem áður bar eftirnafnið Ballarin, hefði verið viðriðin við samsæriskenningar um kosningasvindl. Þá hefði hún einnig logið því að hún væri eigandi herra­set­urs þar sem sjónvarpsþátturinn Kveikur tók viðtal við hana.

Hefur alltaf vitað hvern Michele kýs

Þegar Gunnar er spurður hvort fréttirnar hafi komið honum á óvart segir hann svo ekki vera: „Nei, ég er ekkert sérstaklega hissa enda hef ég lengi vitað um pólitísk tengsl hennar við æðstu ráðamenn í Washington. Þetta er kona sem hugsar stórt og hraustlega út fyrir boxið og ég hef alltaf vitað hvern hún er að fara að kjósa í forsetakosningum.“ 

Gunnar segist aldrei upplýsa fyrir hverja hann sé að vinna og hverja ekki en viðurkennir að hann þekki Michele mjög vel. Gunnar og Michele unnu náið saman þegar hún var stödd hérlendis að kynna fyrirætlanir sínar um endurreisn Wow Air árið 2019.

Spurður um aðkomu hans að viðtalinu í Kveik segist hann hafa mælt með því við hana að fara í viðtalið ásamt því að hafa komið Ingólfi Bjarna Sigfússyni fréttamanni Rúv í samband við Michele.

mbl.is