Ekki þörf á samskiptum við áskrifendur sem er hafnað

Töluverð umframeftirspurn varð eftir hlutum í Icelandair Group í hlutafjárútboði …
Töluverð umframeftirspurn varð eftir hlutum í Icelandair Group í hlutafjárútboði félagsins á dögunum. mbl.is/Árni Sæberg

Í útboðslýsingu fyrir hlutafjárútboð Icelandair Group sem fram fór dagana 16. og 17. september sl. er skýrt kveðið á um að aðeins verði haft samband við þá áskrifendur sem samþykktir verði sem kaupendur. Við aðra verði ekki haft samband.

Páll Ágúst Ólafsson, lögmaður athafnakonunnar bandarísku, Michele Rosevelt Edwards, sem skráði sig fyrir sjö milljarða króna hlut, segir í samtali við Morgunblaðið að ekki hafi borist tilkynning frá Icelandair þar sem tilboðinu er hafnað. „Eðlilega er umbjóðandi minn og hans bakland ósátt við þá meðferð sem þau fengu í þessu útboði og telja að gróflega hafi verið á þeim brotið,“ segir Páll Ágúst.

Páll undrast að nú þegar illa árar í flugrekstri og sem aldrei fyrr sé brýn þörf á nýjum og lausnamiðuðum hugmyndum, ásamt hugsanlega annars konar aðferðafræði, þá skuli stjórnendur Icelandair ekki sjá sér hag í því að fá að borðinu aðila eins og USAerospace Partners sem búi að langri reynslu af fjölþættum flugrekstri og hafi víðtæk tengsl inn í fluggeirann, þar á meðal við Boeing-verksmiðjurnar og fleiri aðila.

Fjölmennasta frá hruni

Hlutafjárútboð Icelandair er langfjölmennasta útboð á Íslandi frá hruni. Yfir níu þúsund áskriftir bárust fyrir samtals 37,3 milljarða króna. Í boði voru 23 milljarðar króna, sem skiptust þannig að 20 milljarðar voru í boði til fagfjárfesta en þrír til almennings.

Morgunblaðið hafði samband við sérfræðinga á markaði sem segja blaðinu að fyrirkomulag útboðsins sé þrautreynt, og skilmálar afar skýrir. Því ætti ekkert að hafa þurft að koma á óvart í framkvæmdinni. Þar að auki sé útboðslýsing birt tímanlega, þannig að allir þátttakendur hafi haft rúman tíma til að kynna sér reglurnar.

Íslensk kennitala nauðsynleg

Grunnskilyrði í útboði Icelandair Group, eins og í öðrum íslenskum útboðum, er að þátttakendur hafi íslenska kennitölu. Hafi hún verið til staðar gátu áskrifendur skráð sig fyrir hlutum inni í sérstöku áskriftarkerfi sem var opnað vegna útboðsins.

Í þeim kafla er einnig upplýst að útgefandinn, Icelandair Group, hafi rétt á að taka eða hafna hvaða tilboði sem er.

Páll Ágúst segir að tilboði Edwards hafi verið skilað inn með kennitölu íslenska hlutafélagsins WOW Holding. Það sé í eigu USAeorospace Partners, sem er í eigu Edwards og viðskiptafélaga hennar.

Í kafla 5.7 í lýsingunni er tímalína útboðsins kynnt og kveðið á um hvernig staðið er að kynningu á niðurstöðu útboðsins, en hún var kynnt strax að kvöldi 17. september.

Upplýst var á mbl.is, hálftíma áður en útboðinu lauk, að Michelle Rosevelt Edwards hefði skráð sig fyrir sjö milljarða hlut í útboðinu. Um kvöldið upplýsti Icelandair að tilboði að upphæð sjö milljarðar hefði verið hafnað, enda hefðu ekki borist fullnægjandi tryggingar fyrir greiðslu fjárins.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu 26. september. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK