Þurfa að ráðast í mikið hreinsunarstarf

Frá Tindastóli í dag.
Frá Tindastóli í dag. Ljósmynd/Sigurður Bjarni Rafnsson

Mikið hreinsunarstarf er fyrir höndum á skíðasvæðinu í Tindastól eftir að aurskriða féll þar í nótt og sleit í sundur háspennustreng. Útlit er fyrir að aðeins hafi verið um eina skriðu að ræða. 

„Það féll aurskriða niður á svæðið úr lóninu hjá okkur sem við söfnum vatni í fyrir snjóframleiðslukerfið okkar. Veggurinn þar virðist hafa gefið sig,“ segir Sigurður Bjarni Rafnsson, formaður skíðadeildar Tindastóls, í samtali við mbl.is.

Lónið þarfnast lagfæringa. Það virðist hafa yfirfyllst.
Lónið þarfnast lagfæringa. Það virðist hafa yfirfyllst. Ljósmynd/Sigurður Bjarni Rafnsson

Hann segir að aurskriður hafi ekki áður fallið á skíðasvæðið. 

„Það bíður okkar mikið hreinsunarstarf en lyfturnar sluppu, það er það jákvæða í þessu. Skemmdirnar eru ekki alvarlegar en það er gríðarleg vinna sem liggur í því að byrja að grjóthreinsa og laga lónið,“ segir Sigurður. 

Mikill hiti var á svæðinu í gær og telur hann líklegt að lónið hafi yfirfyllst vegna samspils hita og mikils snjós í fjallinu. „Lónið hefur líklega bara yfirfyllst og grafist undan,“ segir Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert