„Passlega bjartsýn“ á að geta haldið Þjóðhátíð

Þjóðhátíð var síðast haldin í Vestmannaeyjum sumarið 2019.
Þjóðhátíð var síðast haldin í Vestmannaeyjum sumarið 2019. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Enn er von um að Þjóðhátíð verði haldin með hefðbundnu sniði seinna í sumar, þó eigi síðar en í byrjun september að sögn Harðar Orra Grettissonar, formanns þjóðhátíðarnefndar ÍBV.

„Við erum bara svona passlega bjartsýn á það að geta haldið hátíðina seinna í sumar en erum auðvitað um leið raunsæ,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Aðspurður segist Hörður ekki hafa áhyggjur af áhrifum veðurfars á hátíðina verði hún haldin með hefðbundnu sniði þegar nær dregur hausti. 

„Það er nú oft fínasta veður hérna í ágúst, september en ég held við séum ekkert að fara fresta þessu mikið lengur en það. Ég held að það væri erfitt að halda þetta eftir byrjun september.“

Hörður segir það viðbúið að einhverjir þeirra sem hafi keypt sér miða á hátíðina sjái sér ekki fært að mæta frestist hún mikið lengur, enda sé stór hluti þeirra sem sækir hátíðina ungt fólk sem er að byrja aftur í skóla í ágúst.

„Við erum alveg búin undir það. Við erum með ýmsa möguleika opna þegar kemur að því. Hvort þetta verði hefðbundin Þjóðhátíð eða með öðru sniði eða eitthvað slíkt. Það er eitthvað sem við erum líka að skoða.“

Brekkusöngur í beinu streymi

Brekkusöngurinn á Þjóðhátíð er fyrir löngu orðinn fastur liður í hátíðarhöldum margra um verslunarmannahelgina og hefur hann verið í beinu streymi síðastliðin ár fyrir þá sem heima í stofu sitja.

Engin undantekning verður á því ár en fyrirhuguð dagskrá sunnudagskvöldsins mun fara að fullu leyti fram þrátt fyrir ástandið í þjóðfélaginu.

Forsala miða á streymið er hafin á senalive.is.

„Við ætluðum alltaf að vera með brekkusönginn í beinu streymi frá dalnum. Þetta hefur kannski breyst aðeins síðan þá. Við höfum bætt við listamönnum og þetta verður allt sunnudagskvöldið,“ segir Hörður. 

„Miðasalan hefur gengið mjög vel. Við höfum fengið gríðarlega góðar viðtökur síðustu daga.“

Ekki hefur komið til tals hvort sömu tónlistarmenn og koma fram í brekkusöngnum í beinu streymi á sunnudag muni koma fram í brekkusöngnum í Vestmannaeyjum, verði hátíðin haldin þar yfirhöfuð að sögn Harðar.

Endurgreiða miða eftir verslunarmannahelgina

Inntur eftir því segir Hörður þó nokkra hafa farið fram á endurgreiðslu á miðum á hátíðina.

„Það er alveg eitthvað um það og bara eðlilegt. Við fórum í gegnum þetta allt saman í fyrra og endurgreiddum þá miða. Það er verið að dusta rykið af bókunarvélinni og gera allt klárt fyrir það. Við munum hefja endurgreiðsluferlið fljótlega eftir verslunarmannahelgi fyrir þá sem það vilja,“ segir hann að endingu.

mbl.is