Þórólfur boðar góð tíðindi

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var gestur Sigríðar Hagalín Björnsdóttur í Kastljósi …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var gestur Sigríðar Hagalín Björnsdóttur í Kastljósi í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir væntir góðra tíðinda á morgun þegar ný reglugerð um takmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins verður kynnt. Hann segir þróun faraldursins innanlands fagnaðarefni, bæði í samfélaginu og á Landspítala. „Mér finnst þetta bara mjög jákvætt og ég held að við eigum að nýta okkur það,“ sagði Þórólfur í viðtalsþættinum Kastljósi í kvöld.

Þórólfur var sem fyrr þögull um efnislegt innihald minnisblaðsins og vildi ekki greina frá því hvers lags afléttingar hann myndi leggja til við heilbrigðisráðherra.

Minnisblaði um langtímaaðgerðir ætlað að sýna stöðugleika

Þórólfur var síðan spurður út í minnisblaðið um framtíðarsýn hans sem var opinberað í síðustu viku. Þar lagði hann fram hugmyndir um takmarkanir í einhverri mynd til lengri tíma og sér í lagi á afgreiðslutímum skemmtistaða:

„Ástæðan fyrir því að ég lagði þessar tillögur eða hugmyndir fram er sú að það hefur lítið verið rætt um það hvað gerist næstu mánuði og næstu árin. Hvernig getum við hugsað um faraldurinn og hvernig verður hann. Það hefur verið kallað eftir því. Þetta var innlegg í umræðuna, að koma með mínar hugmyndir um hvernig ég sé þetta. Veiran er enn þá í heiminum og á meðan svo er búum við við einhvers konar ógn hér.“

Ýmsar útfærslur mögulegar fyrir stærri viðburði

Spurður um undantekningar frá banni við stærri viðburðum segir Þórólfur það einboðið að skoða möguleikann á stærri samkomum með tilteknum takmörkunum:

„Það er að segja með því að nota til dæmis hraðgreiningarpróf eins og nágrannaþjóðirnar. Ég held að það sé eitthvað sem við þurfum að skoða. Þetta er ekki bara svartnætti fram undan, það eru möguleikar í stöðunni þótt það séu einhverjar takmarkanir.“

Þórólfur bendir á að flestar bylgjur hafi byrjað að dreifa sér á skemmtistöðum. „Það hefur gerst í þriðju bylgjunni en svo líka í þeirri fjórðu. Ég held að við þurfum að nýta okkur það sem við erum að læra og þá þurfum við að skoða reynsluna.“

mbl.is