Gætu verið 1-2 þúsund á svæðinu

Um þrjátíu björgunarsveitarmenn, lögregluþjónar og landverðir vinna nú að því að rýma gossvæðið vegna skyndilegrar aukningar á hraunflæði niður í Nátthaga. Fylgir því talsverð mengun og hiti og þótti rétt að rýma svæðið meðan viðbragðsaðilar ná utan um nýtilkomna stöðu.

Sjá má vefmyndavél mbl.is í Nátthaga hér.

Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík, segir að mikil hreyfing sé á hrauninu og að það komi nú niður fjallið á þremur stöðum. „Vandamálið er að fólkið æðir upp á móti þessu,“ segir hann og ítrekar hættuna við slíkt. „Þar sem er hiti þar er mengun.“

Frá vettvangi núna í hádeginu.
Frá vettvangi núna í hádeginu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir að ekki sé líklegt að neinn hafi orðið innlyksa þar sem hraunið rennur nú þar sem það sé á svæði sem fólk hafi ekki átt að vera á. „En fólk hefur verið að flykkjast að þessu eins og flugur á skít,“ segir Bogi.

Bogi segir að miðað við meðaldag þegar virkni sé í gosinu og hraunrennsli teljist upp í tvö þúsund manns inn á svæðið á teljurum. Það nái þó ekki utan um allan fjöldann og talsvert sé um fólk sem teljararnir nái ekki. Giskar Bogi á að um 1-2 þúsund manns séu nú á svæðinu.

Um þrjátíu manns úr björgunarsveitinni eru nú að störfum að sögn Boga og segir hann að hann telji viðbragðsaðila vera að ná utan um rýminguna. „Meðan við sjáum hvað þetta gerir viljum við vera öryggir. Við bökkum svo þegar við vitum meira,“ segir hann. Spurður út í hvort hægt sé að áætla áhrif þessara nýju hraunstrauma á hversu langt hraunið mun ná og hvort það geti þurft að gera ráðstafanir vegna þess segir Bogi að það verði allt að koma í ljós með tímanum.

mbl.is/Kristinn Magnússon
Eldgosið í Geldingadölum hefur minnt á sig á síðustu dögum.
Eldgosið í Geldingadölum hefur minnt á sig á síðustu dögum. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is