Erfitt að sjá annað en að verið sé að boða stöðnun

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Ljósmynd/BSRB

Bæta þarf verulega í útgjöld ríkisins til almannaþjónustunnar að mati BSRB enda er aðeins óveruleg aukning boðuð í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í morgun.“

Þetta segir í tilkynningu BSRB, stærstu samtaka opinberra starfsmanna á Íslandi, vegna frumvarps til fjárlaga.

Í kynningu á fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar kom fram að þar sé megináherslan á að tryggja atvinnuöryggi, skapa fleiri störf og minnka skuldabyrði. BSRB segir í tilkynningu að það sé hægt án þess að hækka skatta og án þess að fara í niðurskurð þar sem búið verði við halla á ríkissjóði nokkur ár í viðbót.

Fjármálaráðherra boðaði að innspýting verði í heilbrigðismál, staðið verði með barnafjölskyldum, örorkulífeyrir hækki umfram verðlag og skerðingarmörk vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega hækki. 

Í tilkynningunni segir BSRB að þrátt fyrir þetta sé erfitt að sjá annað en að verið sé að boða stöðnun þegar kemur að almannaþjónustunni, sem hefur verið undir gríðarlegu álagi í heimsfaraldrinum og í mörgum tilvikum löngu áður en hann skall á.

Þurfi aðgerðir fyrir tekjulægstu hópana

„Eignaójöfnuður er að aukast og atvinnuleysi er ennþá mun hærra en við eigum að venjast. Lausnina við langvinnum skaða af Covid-kreppunni er að finna í norræna velferðarlíkaninu. Með eflingu jöfnunarhlutverks skattkerfisins, sterkri afkomutryggingu og öflugri atvinnuuppbyggingu stuðlum við að velsæld og verðmætasköpun.“

Í tilkynningunni segir einnig að aukning ráðstöfunartekna tekjulægstu hópanna sem boðuð er í fjárlagafrumvarpinu sé til bóta en að eins prósents hækkun á örorkulífeyri umfram verðlag muni ekki hafa mikil áhrif á lífskjör öryrkja og síður hjálpa þeim sem fastir eru í fátæktargildru að komast út úr vandanum.

„Um fjórðungur launafólks, helmingur atvinnulausra og 80 prósent öryrkja eiga erfitt með að ná endum saman samkvæmt nýlegum könnunum Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins.

Erfiðleikarnir eru mestir hjá öryrkjum, atvinnulausum, innflytjendum og einstæðum foreldrum. Auka verður framlög til almenna íbúðakerfisins, hækka greiðslur almanna- og atvinnuleysistrygginga til að draga úr tekjuójöfnuði, og draga verður stórlega úr tekjutengingum barnabótakerfisins þannig að bæturnar skerðist aðeins í allra hæstu tekjutíundunum.

mbl.is
Loka