Sendur aftur til ársins 2017

Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu.
Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu. mbl.is/Golli

Félag íslenskra leikara og sviðslistafólks, FÍL, gerir athugasemd við frumvarp til fjárlaga 2022 þess efnis að núverandi framlag til sviðslistasjóðs verði skorið niður um 42,5 milljónir króna frá síðasta ári.

Fram kemur að með þessu sé sviðslistasjóður sendur aftur til ársins 2017.

Vegna kórónuveirunnar var framlagið aukið á síðasta ári í 137 milljónir króna.

„Það er ekki mikil framtíðarsögn og uppbygging í þessari tillögu og er hún í hróplegri mótsögn við markmið ríkistjórnarinnar um að skapa listum og menningu betri skilyrði fyrir fjölbreytni, vexti og nýsköpun,” segir í athugasemdinni þar sem bent er á að sviðslistafólk sé síst í betri stöðu núna en í fyrra.

Einnig er greint frá því að enn séu ákveðnir hópar listamanna starfandi innan sviðslistastofnana án kjarasamnings.

„Barátta FÍL fyrir að koma öllum listamönnum undir skjól kjarasamninga hefur ekki síst strandað á fjármögnun því það kostar meira að vinna samkvæmt kjarasamningi heldur en á þeim kjörum sem nú bjóðast umræddum aðilum sem eru talsvert undir því gólfi sem kjarasamningar sambærilegra viðmiðunarhópa segja til um. Við hvetjum nýja ríkisstjórn til að bæta úr þessu,” segir í athugasemdinni.

mbl.is