Fangar á Litla-Hrauni fengu kartöflu í skóinn

Skórnir voru geymdir fyrir utan klefana enda erfitt fyrir jólasveininn …
Skórnir voru geymdir fyrir utan klefana enda erfitt fyrir jólasveininn að lauma sér inn um gluggana. Ljósmynd/Aðsend

Vonglaðir fangar á Litla-Hrauni, sem stillt höfðu skóm sínum fyrir utan fangaklefa sína, voru síður en svo sáttir með jólasveininn sem heimsótti þá í gærkvöldi.

Fangarnir gripu vissulega ekki í tómt en í stað sælgætis hafði ósoðnum kartöflum verið komið fyrir í skóm þeirra, en sá siður þekkist meðal barna sem hafa verið óþekk. 

Þetta staðfestir Guðmundur Ingi Þóroddsson formaður Afstöðu, félags fanga, í samtali við mbl.is, en hann er nýkominn úr heimsókn frá fangelsinu. Ekki fylgdi þó sögunni hvers vegna jólasveinninn hafði komist að þessari niðurstöðu.

Eftir að hafa heyrt af komu jólasveinsins í fangelsið á Hólmsheiði, brugðu fangarnir á Litla-Hrauni á það ráð að leggja skó sína fyrir utan klefana. Tilraunin bar þó ekki tilskyldan árangur en ekkert sælgæti var að finna þar daginn eftir.

Þrátt fyrir misheppnaða tilraun er þó ekki öll von úti en jólasveinninn hefur boðað komu sína á ný á Litla-Hraun fyrir jól. Gæti því verið að sælgæti muni rata þangað.

„Ég á alveg von á því að þeir muni fá eitthvað gott í skóinn. Þeir hafa hegðað sér vel að undanförnu,“ segir Guðmundur Ingi.

Kartafla var í stað sælgætis.
Kartafla var í stað sælgætis. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert