Hugsa alltaf um fórnarlömbin

Anna-Sigga ferðast víða um Bandaríkin vegna vinnu sinnar við sjónvarpsþáttinn …
Anna-Sigga ferðast víða um Bandaríkin vegna vinnu sinnar við sjónvarpsþáttinn True Conviction en hún fer þá á vettvang glæpsins, hittir fjölskyldu fórnarlambsins og lögregluna á staðnum. Ljósmynd/Belathée Photography

Anna-Sigga hefur átt stórkostlegan feril sem saksóknari í Brooklyn í rúma tvo áratugi þar sem hún hefur fengið marga glæpamenn dæmda í fangelsi. Anna-Sigga ákvað fyrir nokkrum árum að hætta sem saksóknari en glæpir og morð eru þó enn henni hugleikin. Í dag er hún með sinn eigin sjónvarpsþátt, True Convicton, og afar vinsælt hlaðvarp sem milljónir hafa hlustað á.

Man vel eftir Hollywood

Við tölum um íslenska upprunann og Anna-Sigga byrjar á að tala okkar ylhýra tungumál, með örlitlum hreim.

„Mamma mín er íslensk og heitir Björg Sveinbjörnsdóttir. Hún kynntist pabba mínum Richard í kringum 1968 eða 1969 en hann var læknir í hernum í Keflavík og þau kynntust á balli í Reykjavík. Þau fluttu svo til New York þar sem ég fæddist árið 1970. Ég hef alltaf búið í New York en öll fjölskyldan hennar mömmu er á Íslandi og þar var ég mikið sem barn,“ segir Anna-Sigga.

Anna-Sigga er hér með foreldrum sínum, Richard og Björg, en …
Anna-Sigga er hér með foreldrum sínum, Richard og Björg, en faðir hennar starfaði hér sem læknir í hernum.

„Mamma talaði alltaf íslensku við okkur þegar ég var lítil en núna er erfitt fyrir mig að tala og skilja,“ segir Anna-Sigga og segist hafa sagt mömmu sinni um fjögurra, fimm ára aldur að hún vildi heldur tala ensku, sem hún gerði.

„En amma mín talaði enga ensku þannig að hún talaði alltaf íslensku við mig þegar ég heimsótti Ísland og þegar ég var unglingur dvaldi ég hjá frænku minni nokkur sumur og lærði íslensku á námskeiðum í háskólanum,“ segir hún.

„Yfirleitt dvaldi ég hjá ömmu en þegar ég var unglingur var meira gaman að vera hjá frænku minni. Hún var alveg frábær og hjálpaði mér að sigla í gegnum unglingsárin. Ég var þarna fjórtán, fimmtán og sextán ára og kynntist líka íslenska djammlífinu. Ég man mjög vel eftir skemmtistaðnum Hollywood; ég man vel eftir tröppunum upp í Hollywood þegar maður beið í röð og svo var það eins og að koma inn í annan heim þegar maður steig inn fyrir, tónlistin og ljósin.“  

Hvernig komstu inn svona ung, varstu með fölsuð skilríki?

„Ég er saksóknari og ég tjái mig ekki um það,“ segir hún og skellihlær.

Blaðamaður lofar að opinbera ekki það leyndarmál. Anna-Sigga kinkar kolli hlæjandi.

„Ég held að þetta sé örugglega fyrnt.“

Hangikjöt á jólunum

Við skiptum nú yfir í ensku þar sem orðaforðinn hennar er að vonum meiri.

„Ísland hefur alltaf verið sérstakur staður fyrir okkur öll, mömmu, pabba og bróður minn. Ísland er eins og lítill gimsteinn á jörðinni. Ég elska þegar fólk minnist á minn íslenska bakgrunn eða þegar ég fæ tækifæri til að tala um landið. Þegar þú hafðir samband var enginn efi í mínum huga að segja já við viðtali. Ég veit að mamma og frænka mín eru svo spenntar!“ segir hún.

„Við höfum haldið í alls konar íslenskar hefðir. Á jólunum er ég alin upp við hangikjöt og rauðkál á aðfangadag. Ég elska flatkökur, kleinur og skyr. Mamma sá um að við fengjum íslenskan mat. Svo kemur frænka mín alltaf með brauðost þegar hún heimsækir okkur.“

Vann öll sín morðmál

Anna-Sigga ólst upp á Manhattan og síðar á Long Island en hefur nú búið í Brooklyn í áratugi. Þar var hún saksóknari í yfir tuttugu ár og á þeim tíma vann hún að um fimmtíu dómsmálum.

Spurð hvort saksóknarastarfið hafi alltaf verið á dagskrá svarar Anna-Sigga: „Í háskólanum hélt ég að ég vildi verða annaðhvort kennari eða lögfræðingur og ég endaði í lögfræðinni. Það kom svo ekkert annað til greina en að verða saksóknari. Eftir lögfræðinámið sótti ég ekki um neitt annað starf,“ segir hún.

Anna-Sigga var farsæll saksóknari í Brooklyn í yfir tuttugu ár.
Anna-Sigga var farsæll saksóknari í Brooklyn í yfir tuttugu ár. Ljósmynd/Belathée Photography

Ég las á netinu að þú hefðir verið saksóknari í 35 morðmálum og ekki tapað neinu þeirra. Er það rétt?

„Ég hef verið mjög lánsöm í minni vinnu, en ég er alls ekki ein sem ég get eignað mér þann heiður. Það er fjöldi manns sem kemur að svona málum; rannsóknarlögrelgan sem rannsakar málin áður en þau koma til okkar, aðstoðarfólk sem undirbýr málið og svo kviðdómurinn. Mörg mál enda ekki fyrir rétti, en þau sem það gerðu vann ég. Ég hef samt aldrei einblínt á það og held að ég hafi ekki einu sinni vitað þessa staðreynd fyrr en mér var bent á hana fyrir nokkrum árum,“ segir hún.

„Ég vil ekki fókusera á fjölda unninna mála heldur hvort ég hafi verið góður saksóknari. Það skiptir mig miklu meira máli og augljóslega skiptir það miklu fyrir fjölskyldur fórnarlambanna.“

Frænkan myrt úti á götu

Fjölskylda Önnu-Siggu hefur sjálf þurft að upplifa þann hrylling að vera fjölskylda fórnarlambs morðingja, en frænka hennar var myrt þegar Anna-Sigga var níu ára.

„Hún var 25 ára frænka mín og ég leit mikið upp til hennar. Hún var bókstaflega tekin þar sem hún var úti á götu; það var ráðist á hana og hún myrt. Það eru margir sem halda að það sé ástæða þess að ég gerðist saksóknari en það er í hreinskilni sagt ekki rétt, en það hefur samt sem áður haft gífurleg áhrif á mig og hvernig ég sé málin. Hún var einbirni og ég horfði upp á frænku mína og frænda verða skuggann af sjálfum sér. Þau lifðu ekki lífinu þó þau væru á lífi. Ég var mikið hjá þeim í uppvexti mínum og þau komust aldrei yfir þennan missi. Það að sjá alla þá sem þjást og munu aldrei verða eins, hefur alltaf verið eitt af því sem hefur drifið mig áfram þegar ég hef unnið að morðmálum. Ég fer ekki að sofa þó ég sé þreytt því við fáum bara eitt tækifæri í réttarsalnum og aðstandendur eiga það skilið að við gerum okkar allra besta. Þannig snerti þetta mig,“ segir Anna-Sigga og segist enn, öllum þessum árum seinna, eiga stól sem frænka hennar heitin átti.  

Ekki bara morð til skemmtunar

Eftir 21 ár sem saksóknari fann Anna-Sigga að þreyta var farin að segja til sín og þar sem hún taldi að hún gæti ekki lengur gefið sig alla í starfið, ákvað hún að söðla um.

„Það var samt í raun ekkert annað sem mig langaði að gera. Svo datt sjónvarpsþátturinn upp í hendurnar á mér og mér fannst sú vinna auðveld og skemmtileg. Ég hafði svo oft þurft að rekja mál fyrir dómi þar sem ekki mátti slá feilnótu en í sjónvarpsþætti var þetta mun auðveldara og ég kunni sannarlega að tala um morðmál. Ég er að læra inn á þennan nýja feril en efnið er mér sannarlega vel kunnugt,“ segir Anna-Sigga.

Anna-Sigga fer víða á vettvang morðmála fyrir sjónvarpsþáttinn True Conviction.
Anna-Sigga fer víða á vettvang morðmála fyrir sjónvarpsþáttinn True Conviction.

„Ég vildi frekar vera sú sem spurði heldur en svaraði og þannig þróaðist það út í að ég fékk minn eigin þátt, True Conviction. Síðar byrjaði ég með hlaðvarpið Anatomy of Murder. Fólk hefur mikinn áhuga á morðum og glæpum, en ég vil ekki bara að fólk heyri allt um morðið sjálft heldur um fólkið; um fórnarlambið og líf þess. Aðstandendur vilja gjarnan segja frá og minnast ástvinar og ég tala líka við rannsóknarlögreglumenn um þeirra vinnu við málin,“ segir hún.

Raunverulegt líf fólks

Hlaðvarpið Anatomy of Murder hefur heldur betur slegið í gegn og heldur Önnu-Siggu upptekinni.

„Þetta er orðið gífurlega vinsælt og ég er bæði þakklát og hissa en við erum komin með rúmlega 40 milljónir niðurhala,“ segir hún en aðeins er ár síðan hlaðvarpið hóf göngu sína.  

„Þetta er ótrúlegt. Glæpahlaðvörp njóta vaxandi vinsælda. Ég veit ekki hvers vegna, en fólk sem hlustar hrífst með og fer stundum í tilfinningalegan rússibana. Fólk skrifar mér stöðugt og segir mér hversu mikið það fann til með aðstandendum, og ég elska að heyra það. Ég vil að fólk finni til samkenndar eða verði spennt yfir atburðarásinni, því þetta er um raunverulegt líf fólks. Þetta er ekki skáldskapur,“ segir Anna-Sigga og segir líf fólksins sem tengist morðmálunum alltaf í forgrunni, ekki morðið sjálft.

Lærði margt af ömmu Sigríði

Við förum að slá botninn í samtalið. Anna-Sigga segist vonast til að heimsækja Ísland fljótlega og jafnvel vinna hér að þætti.

„Auðvitað ef ég kæmi vegna gerðar þáttar væri það vegna hræðilegs atburðar en ég myndi gera það þannig að það yrði þjóðinni til sóma,“ segir hún og lofar að hitta blaðamann ef af því verður.

Hér er Anna-Sigga með ömmu sinni og afa, þeim Sigríði …
Hér er Anna-Sigga með ömmu sinni og afa, þeim Sigríði Vilhjálmsdóttur og Sveinbirni Gíslasyni og móður sinni Björg.

„Þú verður svo að senda mér eintak af blaðinu þegar viðtalið kemur út, mamma er svo spennt! Frænka mín á Íslandi, Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir, er líka svo spennt. Hún býr í húsi ömmu minnar og alltaf þegar ég fer í heimsókn þangað minnist ég ömmu. Hún var harðdugleg og ótrúleg kona og kenndi mér margt. Ég man svo eftir því þegar hún tók upp úr garðinum glænýjar kartöflur og gulrætur sem hún eldaði svo samdægurs fyrir mig. Ég lærði margt af henni ömmu minni Sigríði sem ég var ég skírð eftir.“

Ítarlegt viðtal er við Önnu-Siggu Nicolazzi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert