20% hafa eytt fé í tölvuleik í blindni

Stelpur hætta frekar að spila tölvuleiki með aldrinum en strákar.
Stelpur hætta frekar að spila tölvuleiki með aldrinum en strákar. Ljósmynd/Unsplash/ELLA DON

Langflestir strákar á öllum skólastigum spila tölvuleiki, þótt þeim fækki aðeins með aldri, eða úr 99 prósentum í barnaskóla niður í 91 prósent á framhaldsskólastigi.

Meðal stelpna spila hlutfallslega flestar tölvuleiki í 4. til 7. bekk, eða 80 prósent. Á unglinga- og framhaldsskólastigi fækkar þeim um rúmlega 20 prósentustig.

Þetta kemur fram í könnun sem Fjölmiðlanefnd fékk Menntavísindastofnun Háskóla Íslands til að framkvæma á vormánuðum 2021.

Ljósmynd/ Fjölmiðlanefnd

Bætt enskukunnátta

Á bilinu sjö til átta af hverjum tíu strákum telja að tölvuleikir bæti enskukunnáttu þeirra. Heldur færri stelpur telja að tölvuleikir bæti kunnáttu þeirra í ensku. Hlutföllin haldast nokkuð stöðug yfir öll skólastigin.

Af þeim sem spila tölvuleiki segjast 4 til 5 af hverjum 10 strákum eyða miklum tíma í tölvuleikjaspilun. Hlutfall stelpna sem telja sig eyða miklum tíma í tölvuleikjaspilun er mun lægra. 

Um helmingur stráka í 4.-7. bekk hefur spilað tölvuleiki með 18 ára aldurstakmarki. Mun færri stelpur hafa spilað tölvuleiki með 18 ára aldurstakmarki.

Ljósmynd/ Fjölmiðlanefnd

Fjárútlát í tölvuleikjum

Einn af hverjum tíu tölvuleikjaspilurum telur sig eyða miklum peningum í spilamennskuna. Sex af hverjum tíu eru ósammála því að þeir eyði miklum peningum í tölvuleiki. Lítill munur er á hlutföllum eftir skólastigum.

Fjórðungur nemenda í 8. til 10. bekk grunnskóla og framhaldsskóla vissi fyrir fram hvaða hluti þeir væru að kaupa í tölvuleikjum, en 20 prósent höfðu eytt peningum án þess að vita fyrir fram hvaða hlutir myndu fást í staðinn.

Töluvert hærra hlutfall stúlkna en drengja segist aldrei hafa keypt neitt fyrir alvöru peninga í leikjum.

Sjö af tíu grunnskólabörnum biðja foreldra sína um leyfi áður eitthvað er keypt í tölvuleik. Hlutfall þeirra sem ekki biðja um leyfi hækkar með aldri. Í framhaldsskóla biðja þrír af hverjum tíu nemendum foreldra sína um leyfi áður en hlutir eru keyptir í tölvuleikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert